TOP POLAR BEAR

Þann 23. apríl 2014 sást óvenjuleg hegðun meðal ísbjarna á Svalbarða þegar karldýr veiddi tvo höfrunga. Atvikinu er lýst í grein í Polar Research.

Það að ísbjörn hafi veitt höfrung er í sjálfu sér ekki mjög skrítið enda eru ísbirnir tækifærissinnar og stundum hræætur þó aðalfæða þeirra séu selir. Það sem gerðist næst verður þó að teljast sérstakt. Ísbjörninn sást draga annan höfrunginn, sem var af tegundinni Lagenorhynchus albirostris, í nánast heilu lagi nokkurn spöl. Leyfar hins höfrungsins, sem hafði verið étinn að miklu leiti, fundust um 50 metra í burtu en ummerkin bentu til þess að ísbjörninn hafi veitt bæði dýrin.

Þegar ísbjörninn hafði dregið heila höfrunginn um fimm metra upp á ísinn tók hann að hylja bráð sína með snjó. Slíkt er mjög óvenjulegt fyrir ísbirni sem yfirleitt éta bráð sína innan sólarhrings frá því að þeir veiða hana. Hegðunin bendir til þess að ísbjörninn hafi ætlað að verja hræið fyrir ágangi annarra dýra, líkt og refa og máfa.

Vísindamennirnir sem sáu atvikið telja að ísbjörninn hafi hreinlega veitt seinni höfrunginn af því að hann gat það og hafi ætlað að nýta hann sem fæðu seinna. Ísbjörninn var í kjölfarið skoðaður og kom í ljós að hann var líklega 16-20 ára. Björninn var mjög grannur og rifbein hans sáust greinilega. Ljóst var þó að hann hafði étið fylli sína af fyrri höfrungnum.