Mynd: Grétar Ívarsson, Union of concerned scientists
Mynd: Grétar Ívarsson, Union of concerned scientists

Á Íslandi er mikil orka unnin úr jarðvarma, sú orka er svo notuð aðallega til að hita húsin okkar og heita vatnið sem við fáum úr krananum. Þessi orka er þokkalega sjálfbær og tiltölulega umhverfisvæn. Það má því segja að við Íslendingar séum ansi heppin að búa á þessari heitu eyju.

Samstarfsverefni Hitaveitu Sudurnesja, Landsvirkjunar, Orkuveitu Reykjavíkur og Orkustofnunar hefur nú stigið fyrstu skrefin í átt að dýpstu hitaveitu borholu sem hingað til hefur verið boruð, a.m.k. hérlendis og líklega um allan heim. Borholan á að ná 5 km niður í jörðina en flestar borholur sem hingað til hafa verið gerðar ná u.þ.b. 2 km.

Tilgangurinn með því að fara svona djúpt niður er að nýta varmann frá bergkvikunni en á svona miklu dýpi, við flekaskil er hitinn um 400-650°C. Þar að auki er þarna heilmikill þrýstingur svo vökvinn sem finnst svona neðarlega er hvorki á fljótandi formi né gas formi heldur á formi sem kallast „supercritical steam“. Þetta þýðir að vökvinn geymir geysilega mikla orku.

Holan mun því gefa margfalt meiri orku en hefðbundnar borholur hafa hingað til gert. Tilgangur verkefnisins er þó ekki einungis að svara framtíðar orkuþörf Íslendinga heldur getur sú þekking sem skapast í þessu verkefni nýst fjölmörgum öðrum þjóðum sem hyggjast nýta jarðvarma til orkuvinnslu.

New Scientist fjallaði um verkefnið í vikunni en einnig er hægt að lesa um það á heimasíðu verkefnisins sem og heimasíðu Orkustofnunar.