Mynd: Foodtank
Mynd: Foodtank

Við þekkjum flest umræðuna um gróðurhúsalofttegundir og hvers vegna talið er mikilvægt að draga úr losun þeirra. Það sem skiptir einnig máli í þessu samhengi er að finna leiðir til að binda meira af gróðurhúsalofttegundum í til dæmis plöntum og jarðvegi. Niðurstöður nýrrar rannsóknar sem unnin var við skosku háskólana í Aberdeen og Edinborg sýnir að vanmat samfélagsins á getu jarðvegsins til að geyma gróðurhúsalofttegundir nemur 8 milljörðum tonna.

Helstu geymsluáhrif jarðvegsins felast í þeim næringarefnum sem hann geymir og öðrum efnasamböndum sem eru mikilvæg fyrir vöxt gróðurs á svæðinu. Í grein rannsóknarhópanna sem birtist í Nature fyrr í þessum mánuði, útlista hóparnir hvar jarðræktendur geta bætt jarðnýtingu sína til að gera hana umhverfisvænni. Það sem helst þarf til er breytt eða bætt notkun á jarðveginum, þ.e. breyta innihaldi hans, að rækta plöntur með stærri rótarkerfi og að lokum að nýta jörðina á sjálfbæran hátt.

Það síðastnefnda hefur sennilega víðtækari áhrif en einungis á gróðurhúsalofttegundir eins og vísindamennirnir horfa mest til hér, en með sjálfbærri nýtingu landsins er verið að stuðla að jafnari uppskeru. Uppskeran er nefnilega best þegar ekki er gengið á sömu næringarefnin ár eftir ár.

Í fréttatilkynningu frá Edinborgarháskóla er þó bent á að eigi að ráðast í svo stórtæk verkefni er mikilvægt að verkefnin eigi sér ekki landamæri. Landnotkun er mjög misjöfn eftir menningarheimum og allir verða að leggjast á eitt til að skila sem bestum árangri í takmörkun gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu. Það verður spennandi að fylgjast með hverju fram vindur í þessum efnum.