Mynd: Vanessa (Glacier wallpapers)
Mynd: Vanessa (Glacier wallpapers)

Rannsóknir á sviði loftslagsbreytingar gefa okkur alltaf betri og betri mynd af því hvernig náttúruöflin spila saman í að mynda þann heim sem okkur líður svo vel í, með andrúmsloft sem við getum andað að okkur, hitastigi sem hentar okkur og svo framvegis. Þessi heimur er nú samt ekki gefins og mun kannski ekki endast að eilífu, sérstaklega ekki ef við hugsum ekki vel um hann.

Nýlegar rannsóknir í Barentshafi hafa verið nýttar til að búa til líkön af því hvernig metangösum er haldið í skefjum undir þrýsingi frá ís sem flýtur yfir höfunum okkar, eins og t.d. á Suður- og Norður skautunum. Vegna þess hve þungur ísinn er og kaldur þá myndast aðstæður í hafsbotninum þar sem metan, sem er venjulega lofttegund, fer nokkurn veginn á fast form og binst í jarðveginn. Þegar ísinn bráðnar og þrýstingnum er létt losnar metanið úr jarðveginum og streymir uppá yfirborðið. Þetta gerist yfirleitt á svo löngum tíma að áhrifanna gætir ekki í andrúmslofti, það hefur norskur vísindahópur við Norwegian geological Survey staðfest með því að aldursmæla kolefnið sem safnast hefur í sjávarbotninn í Barentshafi. Hópurinn birti þessar niðurstöður í Nature Communications fyrr í þessum mánuði.

Í myndbandinu hér að neðan er tímalínan hafsbotnsins í Barentshafi útskýrð. Í þessu tilfelli bráðnaði ísinn að a.ö.l. mun hægar en sú bráðnun sem við erum að horfa uppá núna, en það gæti skipt máli við losun metansins úr jarðskorpunni. Mögulega verða áhrifin meiri ef losunin gengur hraðar fyrir sig og gæti metanið haft meiri áhrif á efnasamsetningu sjávar og andrúmsloftsins.