Vísindamenn hafa komist að því að hvítháfar halda sig á óvæntum svæðum í hafinu. Lengi var talið að hvítháfar við Norður-Ameríku héldu sig að mestu leyti nálægt ströndum á vesturströnd heimsálfunnar. Eftir nær 20 ára rannsóknir hefur annað komið í ljós.

Fyrir nær tveimur áratugum hófu vísindamenn að merkja hvítháfa svo hægt væri að rekja ferðir þeirra. Það sem þessar merkingar hafa leitt í ljós er að hákarlarnir færa sig frá fæðuríkum ströndum Norður-Ameríku inn á svæði í Kyrrahafinu sem er meira en 1.000 kílómetrum frá ströndum Mexíkó. Gervihnattamyndir af svæðinu virtust benda til þess að á þessu svæði væri lítið að finna og voru vísindamenn því undrandi yfir því af hverju hákarlarnir héldu þessa löngu leið í stað þess að halda sig nær landi.

Til að reyna að varpa ljósi á þessar óvæntu niðurstöður voru yfir 30 hvítháfa merktir með svokölluðum „pop-up“ merkjum haustið 2017. Pop-up merki eru til þess gerð að mæla breytur á borð við staðsetningu, hitastig, dýpi og ljós í hafinu og geta þannig gefið upplýsingar um hegðun dýra sem bera þau sem og umhverfi þeirra. Þau merki sem voru notuð í þessari rannsókn höfðu þann eiginleika að eftir ákveðinn tíma losnuðu þau af dýrinu og flutu upp á yfirborðið þar sem þau gáfu frá sér mekri til að auðvelda vísindamönnum að finna þau á ný. Í vor var haldið í leiðangur í átt að svæðinu og reynt að endurheimta merkin.

Líkt og rannsóknarhópurinn hafði áætlað fundust hvítháfarnir á áðurnefndu svæði sem vísindamennirnir hafa nefnt “kaffihús hvíthafsins” (e. White Shark Cafe”).

Enn er unnið úr þeim merkjum sem voru endurheimt í leiðangrinum en ýmislegt hefur þegar komið í ljós. Til dæmis virðist sundhegðun kvenkyns og karlkyns hákarl vera mismunandi. Karldýrin kafa gjarnan hratt upp og niður í hafinu oft á dag á meðan kvendýrin kafa djúpt á daginn en halda sig á minna dýpi á næturnar. Þetta voru niðurstöður sem komu rannsóknarhópnum á óvart of munu frekari rannsóknir vonandi varpa ljósi á af hverju hegðunarmynstur kynjanna er mismunandi.

Rannsóknarhópurinn safnaði einnig upplýsingum um aðstæður á hákarlakaffihúsinu. Þvert á það sem talið hafði verið var svæðið ríkt af næringu. Í raun var að finna flókna fæðukeðju á svæðinu og því má ætla að hákarlarni hafi nóg að bíta og brenna, ólíkt því sem áður var talið.

Rannsóknir sem þessar minna okkur á þá staðreynd að við vitum afar lítið um höf heimsins. Svæði sem áður var talin einskonar eyðimörk í hafinu er í raun full af lífi.