Kermit

Fyrirmynd Kermit hefur nú fundist í Regnskógum Kosta Ríka. Froskategundin hefur fengið nafnið Hyalinobatrachium dianae, en nafnið dianae vísar til móður mannsins sem uppgötvaði froskana. Froskurinn er merkilegur fyrir þær sakir að hann er alveg eins og Kermit, eins og sést á myndinni, en að auku hefur hann ýmsa eiginleika sem gera hann enn merkilegri.

Fyrst ber að nefna að froskurinn er nánast gegnsær. Hann er reyndar ekki eina froskategundin sem er gegnsæ en margar slíkar hafa fundist. Það verður samt að teljast merkilegt að geta skoðað líffæri einstaklingsins með því a horfa undir froskinn. Enn sem komið er hefur þróunarfræðileg skýring að baki þessu útliti ekki uppgötvast.

Annað atriði sem kemur froskinum á kort merkilegra froska er að hann notast við óhefðbundin hljóð. Froskar kalla hver á annan á mökunartímanum og flestir hafa þeir áþekk hljóð. En þessi fer ótroðnar slóðir í þeim efnum og notast við hljóð sem vísindamenn hefðu frekar flokkað sem skordýrahljóð.

Ekki fundust nema 6 einstaklingar þegar froskurinn uppgötvaðist svo ekki er hægt að segja til um samsetningu tegundarinnar eða hvort hún er í útrýmingarhættu. En froskarnir virðast ekki fælnir við menn heldur sátu þeir hjá vísindamönnunum heillengi svo auðvelt var að skoða þá í bak og fyrir.

Hér má sjá umfjöllun Iflscience um fundinn.