Mynd: Maurilio Cheli/AP
Mynd: Maurilio Cheli/AP

Skýrsla á vegum samtakanna World Wildlife Fund (WWF) varpar ljósi á áhrif vaxandi kjötneyslu mannkynsins á líffræðilegan fjölbreytileika. Samkvæmt skýrslunni má rekja 60% af töpuðum líffræðilegum fjölbreytileika til neyslu okkar á dýraafurðum.

Umræðan um umhverfisáhrif neyslu á dýraafurðum er ekki ný af nálinni. Sífellt fleiri aðhyllast svokallaða „Vestræna fæðu“ sem samanstendur að miklu leyti af kjöti, mjólkurvörum og unnum matvælum. Til þess að svara aukinni eftirspurn þarf að leggja sífellt stærri landsvæði undir ræktun á fæðu fyrir búfénað sem hefur óhjákvæmilega áhrif á lífverur á svæðinu. Þetta á sérstaklega við á landsvæðum þar sem viðkvæmar tegundir lifa sem njóta ekki fullnægjandi verndar frá yfirvöldum og er líffræðilegur fjólbreytileiki þar í meiri hættu en víða annars staðar.

Búfénaður heimsins er að miklu leyti alinn á soja en samkvæmt skýrslunni er svo mikið framleitt af soja að hinn meðal Evrópubúi innbyrgðir um 61kg af því á ári. Að miklu leyti er um að ræða óbeina inntöku í gegnum dýraafurðir á borð við kjúkling, eldislax, egg og mjólkurvörur. Búist er við því að neysla á dýraafurðum fari hratt vaxandi á næstu árum og ef heldur áfram sem horfir þyrfti að auka sojaræktun um nærri 80% til ársins 2050.

Duncan Williamson hjá WWF sagði í samtali við The Guardian að neysla á dýrapróteinum sé meiri en nauðsynleg er og að rekja megi 60% af tapi á líffræðilegum fjölbreytileika á heimsvísu til fæðunnar sem við neytum. Hann nefndi einnig að fæstir séu meðvitaðir um það að stærsta vandamálið í þessu samhengi sé vegna ræktunar á æti fyrir dýr til manneldis en fram að þessu hefur að mestu leyti verið rætt um umhverfisáhrifin út frá útblæstri og vatnsnotkun.

Í Bretlandi eru neyslviðmið fyrir prótein 45-55 grömm á dag en meðalpróteinneyslan er í raun 64-88 grömm á dag. Þar af má rekja 37% til neyslu á dýraafurðum.

Í ljósi þessa mælir WWF með því að almenningur enduskoði neyslu sína á dýraafurðum, borði minna kjöt, minnki matarsóun og hugi að því hvaðan fæðan kemur.