Mynd: Stanford Medicine
Mynd: Stanford Medicine

Lengi hafa umhverfisverndarsinnar og aðrir sem láta sig málið varða haft áhyggjur af áhrifum hlýnunar jarðar á kóralrifin. Það er ekki að ástæðulausu því þau eru grunnur að svo mörgu sem býr í hafinu og eru á sama tíma einstaklega viðkvæm fyrir breytingum á hitastigi sem og allri þeirri mengun sem dælt er í höfin á hverjum tímapunkti. Mörg hver hafa nú þegar hnignað svo mikið að framtíð þeirra er óljós.

Nýlega uppgötvaði vísindahópur við University of Technology í Sydney, kóralrif við strendur Nýju Kaledóníu sem er eyja austur af Ástralíu. Þessi kóralrif virðast helst vilja vera í heitum og súrum sjó. Heitur og súr sjór er einmitt það sem höfin stefna í að verða haldi hlýnun jarðar áfram á sama hraða.

Vísindahópurinn vinnur nú að því að skilgreina hvers konar kóraltegundir lifa þarna og hvað gerir þær sæknar í súrt og heitt umhverfi. Ein helsta tegundin sem finnst þarna flokkast sem fenjaviður og gætu þau spilað lykilhlutverk.

Vonir standa til að hægt verði að hjálpa kóralrifjum sem eru á barmi útdauða með því að auðga tegundafjölbreytileika þeirra með tegundum sem þola breytingar sjávar og þær tegundir geti síðan stuðlað að áframhaldandi vexti. Enn sem komið er eru rannsóknir á frumstigi og ekki hægt að segja til um hvaða áhrif flutningur tegunda milli staða gæti haft, þar þarf að stíga mjög varlega til jarðar þar sem viðbrögð vistkerfisins gætu orðið allt önnur en þau sem búist er við.

Það eru þó alltént góðar fréttir að vita til þess að einhver kóralrif muni mögulega lifa af þær breytingar sem við mennirnir höfum haft á umhverfið okkar.