chinesemammal01.adapt.1190.1

Krúttlega dýrið á myndinni nefnist Ili Pika (Ochotona iliensis) og finnst eingöngu í norðvesturhluta Kína. Fyrrum verndunarlíffræðingurinn Li Widong hefur reynt að ná mynd af dýrinu í yfir 30 ár eða frá því að hann sá það fyrst árið 1983. Dýrið er í bráðri útrýmingarhættu og þrátt fyrir að hafa rannsakað tegundina í öll þessi ár hefur Li Widong aðeins séð til þess nokkrum sinnum. Þegar hann náði myndinni að ofan höfðu 24 ár liðið síðan hann sá það síðast. 29 einstaklingar af tegundinni hafa sést svo vitað sé og afskaplega lítið er vitað um tegundina, sem er skyld kanínum.

Náttúrulegir óvinir Ili Pika eru refir, hreysikettir og ránfuglar en eins og hjá flestum tegundum er maðurinn hættulegasta ógnin og hefur búsvæði tegundarinnar minnkað um 71% á síðustu 30 árum.

National Geographic birti á dögunum mynd af Ili Pika og í kjölfarið hefur tegundin öðlast heimsfrægð, enda eru krúttleg dýr vinsælt efni á internetinu. Þessi skyndilega frægð veldur Li Widong áhyggjum og sagði hann fréttamanni BBC að þó að margir vilji hjálpa til við að vernda tegundina þýðir aukin athygli einnig að meiri hætta gæti stafað að tegundinni í framtíðinni.