Áhrif mannsins á umhverfi sitt eru sívaxandi og því miður ekki á jákvæðan hátt. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að vekja stjórnvöld og almenning til umhugsunar virðist fátt gerast til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda útí andrúmsloftið.

Sem betur fer virðast þó einhver stór fyrirtæki vera að ranka við sér og þeirra á meðal er Toyota, sem nýlega tilkynnti framtíðaráform sín um orkuver sem rísa á í Californiu.

Slíkar framkvæmdir hljóma kannski ekki sérlega umhverfisvænar en í þessu tilfelli mun vonandi verða breyting þar á.

Hugmynd Toyota er að framleiða orku úr kúamykju. Eins og margir vita er kúamykja stór uppspretta metans, sem er gastegund sem m.a. ýtir undir gróðurhúsaáhrif. Ræktun á nautgripum er fyrir margar sakir mjög óumhverfisvænn iðnaður, en úrgangur dýranna er eitt af því sem gerir nautgriparæktun sérlega óheppilega þegar kemur að því að draga úr hlýnun jarðar.

Orkuna sem unnin verður úr mykjunni, á að nýtast til að búa til vetni sem hægt verður að nota m.a. til að knýja áfram vetnisbíla. Orkuverið á því ekki aðeins að vera leið til að losa okkur við mengandi úrgang heldur einnig til að ýta undir nýtingu á vistvænu eldsneyti.

Hér á Íslandi hefur verið farið í áþekkar framkvæmdir þar sem metanið úr rusli borgarbúa er nýtt til að knýja m.a. strætó-ana okkar áfram.

Þessi tilkynning frá bílarisanum Toyota er vonandi forsmekkurinn af því sem koma skal, ekki einungis frá Toyota heldur frá öllum stórum fyrirtækjum sem geta með stærð sinni haft gríðarlega mikil áhrif.