Mynd: Landvernd
Mynd: Landvernd

Björn Ingi Jónsson, bæjarstjóri Hornafjarðar, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landverndar, undirrituðu í síðustu viku yfirlýsingu þar sem sveitarfélagið Hornafjörður ábyrgist það að vinna að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þetta kemur fram á vefsíðu Landverndar.

Meðal þess sem kemur fram í samningnum er að sveitafélagið stefni að 3% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegundar frá samgöngum, orkunotkun og úrgangi. Aðgerðaráætlunin kemur til með að vera enduskoðuð árið 2018 með tilliti til frekari samdráttar.

Um er að ræða lið í loftslagsverkefni Landverdnar sem hefur verið í vinnslu í rúm tvö ár. Verkefnið nefnist „Tækifærin liggja í loftinu” og er byggt á fyrirmynd frá náttúruverndarsamtökum í Danmörku sem um 75% sveitafélaga þar í landi taka þátt í. Landvernd vill með verkefninu virkja sveitafélög í landinu í því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda en það er sýn félagsins að Ísland verði kolefnishlutlaust eftir 15-20 ár.

Hornafjörður er fyrsta sveitafélagið sem undirritar slíkan samning en búast má við því að fleiri sveitafélög bætist við á næstunni og má nefna að Fljótsdalshérað hefur þegar hafið undirbúningsvinnu.