diatoms

Jöklar eru ískaldar snjóbreiður sem fyrirfinnast hátt uppí fjöllum, eins og við þekkjum öll. Jöklar eru tilkomnir vegna þess að þar er svo kalt að snjórinn bráðnar ekki yfir heitasta tima ársins og með tímanum safnast snjór og klaki saman í stóra bungu sem við nefnum jökla. Líf þrífst illa á jöklum, en jöklar virka eins og fínustu frystikistur þannig að hafi eitt sinn verið líf á þeim geymist það einstaklega vel.

Vísindamenn sem söfnuðu sýnum í Quelccaya Summit Dome jöklunum í Andesfjöllunum brá því heldur betur í brún þegar sýnin gáfu óvæntar upplýsingar um þróun þörunga. Sýnunum var safnað í þeim tilgangi að skilgreina veðurskilyrði yfir löng tímabil en það er gert með því að skoða nokkurs konar íslög í jöklinum. Þegar sýnunum hafði verið safnað sáu vísindmennirnir nokkuð óvenjulegt, sýnin innihéldu heilan helling af kísilþörungum.

Slíkir þörungar hafa fundist áður í jökulsýnum frá bæði Norður- og Suðurskautinu, en þetta er í fyrsta sinn sem slíkir þörungar finnast á svona heitum svæðum eins og Perú er. Þörungarnir eiga líklegast uppruna sinn í ferksvötnum eða votlendi sem enn er til staðar í Perú og mögulega hafa þeir ferðast með vindi alla leið á jökulinn. Vísindahópurinn útilokar ekki að þörungarnir hafi getað lifað í einhverja stund á jöklinum, áður en þeir frusu og geymdust í jökullaginu í hundruði ára.

Með fundinum hafa opnast tækifæri til að bera saman þörunga sem enn finnast í ferskvötnum fjalllendis Perú og þeirra þörunga sem voru til fyrir hundruðum ára. Ekki er nóg með að hægt sé að bera saman erfðabreytileika þeirra og þróun, heldur er einnig hægt að tímasetja atburðina mjög nákvæmlega með jökullögunum.

Þessi rannsókn var því ekki einungist mikilvægt framlag til jarðsögunnar, þar sem staðfest er að háfjalla ferksvötn hafa verið til í mörg hundruð ár, heldur einnig til líffræðinnar sem nú getur nýtt þessar uppgötvanir til að skoða þróun tegunda.