Mynd: ICA/Nature & More
Mynd: ICA/Nature & More

Verslanir í þremur löndum prófa nú nýja aðferð til að merkja grænmeti og ávexti. Merkingarnar eru gerðar með laser og gætu komið í stað hefðbundinna límmiðamerkinga. Ástæðan eru umhverfisáhrif hefðbundinna merkinga en aðferðin spara bæði orku og plast auk þess sem hún minnkar losun koltvísýrings.

Tæknin var þróuð að fyrirtækinu Laser Food og var upphaflega hugsuð sem markaðsetningartól fremur en umhverfisvæn lausn. Tæknin byggir á því að laser er notaður til að fjarlægja litarefni á yfirborði matvælanna og hefur hann aðeins áhrif á ysta lag þeirra. Áhrif á gæði matvælanna og geymsluþol eru engin.

Verslanirnar sem prófa nú tæknina eru Nature & More í Hollandi og ICA í Svíþjóð sem merkja lífrænar lárperur og sætar kartöflur með þessum hætti. Verslunarkeðjan Marks & Spencer á Bretlandi notar sömu tækni til að merkja kókoshnetur. Merkingarnar eru aðeins notaðar á vörur sem seldar eru í lausasölu en samkvæmt reglum Evrópusambandsins er skylt að merkja ávexti og grænmeti sem seld eru í lausasölu.

Í samtali við The Guardian sagði Peter Hagg hjá ICA að um 200 km af 30 cm breiðu plasti komi til með að sparast á ári í merkingar á lárperum með tækninni. Auk þess er losun koltvísýrings aðeins um 1% af því sem gengur og gerist fyrir framleiðslu hefðbundinna ávaxtalímmiða.

Verkefnið er enn á tilraunastigi og eru næstu skref að prófa þær á matvælum með ætri húð. Taki neytendur vel í það er vonast til þess að tæknin nái frekari útbreiðslu.