inside full length

The Siberian Times sagði frá því í vikunni að loðnashyrningakálfur (Coelodonta antiquitatis) hafi fundist í sífrera í Síberíu við mikinn fögnuð vísindamanna.

Veiði- og viðskiptamaðurinn Alexander „Sasha“ Banderov fann kálfinn í september í fyrra ásamt vini sínum Semen Ivanov. Í fyrstu töldu þeir að um hreindýr væri að ræða en síðar kom í ljós að dýrið var loðnashyrningur. Hræið er talið vera yfir 10.000 ára gamalt og hafa vísindamenn getið sér til um að kálfurinn hafi verið um 18 mánaða þegar hann lést.

Loðnashyrningar voru uppi á Pleistocene og voru búsvæði þeirra allt frá Skotlandi og Spáni til Suður-Kóreu. Talið er að þeir hafi dáið út fyrir um 10.000 árum, meðal annars vegna veiða manna og breyttra aðstæðna vegna loka ísaldarinnar.

Þessi fundur er einstakur en aðeins örfáir loðnashyrningar hafa fundist í heiminum og þetta er í fyrsta skipti sem kálfur finnst.
Vísindamenn vona að rannsóknir á kálfinum, sem er mjög vel varðveittur, muni geta varpað ljósi á tegundina sem hefur hingað til verið lítið þekkt og er áætlað að fyrstu niðurstöður muni birtast eftir nokkrar vikur.