Mengun, hvar sem hana er að finna, er vaxandi vandamál í heiminum. Loftmengun sem sérstaklega hefur áhrif í borgum, er talin flýta fyrir dauða milljóna manna um allan heim á ári hverju. Þrátt fyrir áhrifin sem mengun hefur á okkur er lítið vitað um hvaða efni eru til staðar í loftmengun og hvernig þau hafa áhrif á lífkerfið okkar.

Rannsóknarhópur við Cedars-Sinai Medical Center notaði rottur í rannsókn sinni til að skoða hvaða áhrif loftmengun getur haft á líkamann. Rannsóknarhópurinn hermdi eftir loftaðstæðum í Los Angeles og gerðu þrjá mismunandi hópa af rottum útsetta fyrir efnunum í 2 vikur, 1-3 mánuðir eða 1 ár. Eftir að meðhöndlunartíma lauk skoðuðu þau hvort efnin væri til staðar í heilum rottanna og hvort þau hefðu haft áhrif á genatjáningu dýranna.

Innöndun mengaðs lofts í 1-3 mánuði skyldi eftir sig leyfar af málmum sem finnast í andrúmsloftinu, í heilum rottanna, þ.e. zink, kóbalt og nikkel. Genatjáning rottanna hafði einnig breyst, á þann hátt að gen eins og EGR2, IL13-Rα1, IL-16 og RAC1 voru tjáð í meira magni. IL13-Rα1 og IL-16 taka þátt í bólgusvari en það síðastnefnda, RAC1, er svokallað krabbameinsgen, sem þýðir að þegar tjáning þess fer úr skorðum eða er of mikil þá ýtir það undir krabbameinsmyndun vegna þess að það hefur örvandi áhrif á frumuskiptingu.

Þessi stutta rannsókn gefur vísbendingar um hversu mikil áhrif loftmengun getur haft á líkamann. Áhrif loftmengunar á mannslíkamann er alveg örugglega á einhvern hátt svipuð eða jafnvel eins. Hér var loftmengunin raunar sértæk fyrir Los Angeles og því ómögulegt að segja hvort það sama sé uppá teningnum í öllum borgum, en margar breytingar sem eiga sér stað á genatjáningu eru óháðar efnasamsetningu og eru oft víðtækt svar við utanaðkomandi áreiti.

Loftmengun eins og önnur mengun er því ekki skaðlaust fyrirbæri og mikilvægt að við leggjum öll okkar af mörkum til að stemma stigum við henni.