Ýmislegt bendir til þess að þær loftslagsbreytingar sem nú eiga sér stað á Jörðinni komi til með að hafa afdrifaríkar afleiðingar fyrir mannkynið. Á dögunum birtist grein í tímaritinu Nature Climate Change sem fjallar um lítt ræddar afleiðingar loftslagsbreytinga á fiskveiðar: þ.e. fjölgun storma. Að sögn höfunda greinarinnar gætu slíkar breytingar gerst hratt og ógnað bæði fiskveiðum og þeim sem þær stunda.

Áhrifin misjöfn eftir heimshlutum
Það voru vísindamenn við University of Exeter, Met Office, University of Bristol og Willis Research Group sem stóður að baki greininni. Við gerð hennar voru fyrri rannsóknir á stormum og breytingum á þeim greindar, ásamt framtíðarspám á sama sviði.

Við greininguna kom í ljós að misjafnt er hver áhrifin eru talin vera eftir heimshlutum. Spáð er fyrir um að stormum í kjölfar Monsoon tímabilsins í Arabíska hafinu fari vaxandi, að fellibyljum í Austur-Kínahafi fjölgi sem og að stormum í austanverðu Norður-Atlantshafi fjölgi. Aftur á móti er gert ráð fyrir að stormum fari fækkandi í Miðjarðarhafinu á næstu tveimur öldum.

Áætlað er að stormum við strendur Bretlands fari bæði fjölgandi og versnandi á næstu tveimur áratugum. Horfurnar eru taldar enn verri í Norðursjó, Norður Atlantshafi og vestan við Bretland, Írland og Frakkland.

Ein helsta atvinnugrein Íslands
Mikilvægi fiskveiða þekkja Íslendingar af eigin raun. Fiskveiðar er ein helsta atvinnugrein Íslendinga. Svo mikilvæg er hún að við heiðrum sjómenn ár hvert á Sjómannadeginum fyrir störf sín.

Fiskveiðar eru einnig afar mikilvægar á heimsvísu. Þær sjá um 3.1 milljarði manna fyrir nær 20% af próteininntöku sinni úr dýraríkinu og 12% mannkynsins hafa lífsviðurværi sitt af þeim. Sjómennska er auk þess eitt af hættulegri störfum sem til eru, en/og um 38 milljónir manna um heim allan stunda hana

Breytingarnar gætu verið hraðar
Loftslagsbreytingar eiga sér ekki stað á einni nóttu en talið er að öfgar í veðurfari og sér í lagi fjölgun storma, geti gerst hraðar en breytingar á borð við hlýnun og súrnun sjávar.

Við höfum nú þegar orðið vitni af fjölgun öfgafullra veðurfyrirbrigða og hafa rannsóknir sýnt fram á að þær fari vaxandi. Síst er búist við því að hægja fari á þróuninni og hafa höfundar greinarinnar áhyggjur af afleiðingum þess.

Aukning á stormasömu veðri getur haft ýmsar afleiðingar í för með sér. Tilfærsla fiska, bæði tímabundin og varanleg, gæti átt sér stað í auknum mæli. Að auki getur slæmt veðurfar haft neikvæð áhrif á fjölgun fiska og afkomu fiskiseiða og síðast en ekki síst gætu veiðar orðið hættulegri fyrir þá sem þær stunda.

Áhrifa gæti líka gætt á landi
Áhrifin eru þó ekki aðeins á sjómennina sjálfa heldur geta stormarnir haft áhrif á þá sem eru á þurru landi líka. Slæmir stormar geta eyðilagt byggingar og þannig haft áhrif á lífsviðurværi íbúa á viðkvæmum svæðum við strendur. Að auki getur slæmt veðurfar haft slæmar afleiðingar fyrir fiskeldi en það getur bæði haft áhrif á fiskana í eldinu sem og byggingar og tækjabúnað sem að því koma.

Kalla á breytingar
Meðal þess sem vísindamenn hafa óttast með tilliti til loftslagsbreytinga fram að þessu eru breytingar á fiskistofnum og möguleikinn á því að nytjastofnar færi sig úr lögsögum sumra landa til að sækja í kaldari sjó. Aukning storma hefur ekki verið mikið í deiglunni en að mati höfundanna er það vandi sem gæti sagt til sín enn fyrr en aðrar breytingar.

Höfundar greinarinnar benda á mikilvægi þess að vinna sé lögð í að spá betur fyrir um hvar líklegt sé að stormar verði. Höfundarnir hvetja eindregið til þess að lögð sé meiri áhersla á rannsóknir á þessu sviði.

Fréttin birtist fyrst í tímariti og á vefsíðu Stundarinnar