capture

Loftslagsbreytingar Jarðar hafa þegar farið að hafa áhrif víðsvegar um heiminn og berast nú fréttir af því að framtíð kaffis gæti verið í hættu ofan á allt annað.

Ef marka má niðurstöður rannsóknar sem birtar voru í tímaritinu PNAS mun kaffi hækka mikið í verði í náinni framtíð og gætu Mið- og Suður-Ameríka tapað allt að 88% kaffiuppskeru sinnar til ársins 2050.

Ástæðuna má meðal annars rekja til þess að veðurfar á helstu kaffiræktunarsvæðum er hægt og bítandi að vera óhægstætt til kaffiræktunar auk þess sem stofnum lífvera sem frjóvga kaffiplönturnar fer hratt fækkandi.

Þetta gæti, samkvæmt niðurstöðum rannsóknarhópsins þýtt að 73-88% af kaffiræktunarsvæðum tapist. Þetta samsvarar 46-76% af kaffiræktun á heimsvísu þar sem að mikill hluti kaffi heimsins kemur frá löndum í Mið- og Suður-Ameríku.

Þrátt fyrir að hópurinn meti það svo að mörg svæði sem nú eru nýtt til kaffiræktar muni tapa uppskeru sinni að miklu leyti áætlar hann einnig að önnur svæði komi til með að koma í staðin upp að einhverju marki. Til dæmis muni kaffirækt líklega hrynja í Nicaragua, Hondúras og Venezúela en Mexíkó, Gvatemala, Kólumbía og Kosta Ríka gætu hins vegar orðið hagstæðari til kaffiræktunar en nú.

Þessar breyting hafa auðvitað ekki aðeins áhrif á kaffiunnendur og verð á kaffi um allan heim heldur er kaffirækt lífsviðurværi fjölda fólks. Ætla má að fjölmargir kaffibændur muni tapa uppskeru sinni og þar með innkomu sem kæmi til með að hafa hræðilegar afleiðingar fyrir fjölda fjölskylda.