europa

Í nýrri skýrslu frá Umhverfisstofnun Evrópu kemur meðal annars fram að losun gróðurhúsalofttegunda í löndum innan Evrópusambandsins hafi minnkað um rúm 20% á milli áranna 1990 og 2014. Að hluta til má rekja þessar breytingar til þess að kolum hefur að einhverju leiti verið skipt út fyrir jarðgas og aukning hefur orðið í notkun á endurnýjanlegum orkugjöfum.

Hlýnandi loftslag hefur einnig haft sitt að segja. Meðal þess sem kemur fram í skýrslunni er að minni losun gróðurhúsalofttegunda árið 2014 megi að miklu leiti rekja til þess hversu mildur veturinn var í heimsálfunni það árið.

24,4% minni losun
Á tímabilinu sem skoðað var mátti sjá 24,4% minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda í Evrópusambandinu. Þessi tala er nokkuð merkileg þar sem að hún fer í raun fram úr markmiði Kyoto bókunarinnar sem samþykkt var árið 1997. Þar var stefnt að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu um 20% fyrir árið 2020.

Mesta breytingin í Bretlandi og Þýskalandi
Þegar litið er til þess hvaða lönd drógu mest úr losun gróðurhúsalofttegunda eru það Bretland og Þýskaland sem hafa vinninginn. Ricardo Fernandez hjá Umhverfisstofnun Evrópu segir það meðal annars stafa af því að þegar Þýskaland sameinaðist voru gerðar miklar breytingar á orkunýtni í landinu. Í kjölfar sameiningarinnar var óskilvirkum orkuverum til dæmis lokað. Á Bretlandi var það meðal annars aukið frjálsræði í framleiðslu á raforku sem hafði áhrif.

Ekki eingöngu góðar fréttir
Við vinnu skýrslunnar kom einnig ýmislegt í ljós sem betur má fara innan Evrópusambandsins. Meðal þess er að aukning hefur orðið í notkun á vetnisflúorkolefnum sem má að mestu rekja til aukningar í notkun á loftkælingum og ísskápum. Einnig hefur 124 milljón tonna aukning í losun orðið frá vegasamgöngum. Árið 2014 var losun gróðurhúsalofttegunda frá vegasamgöngum 20% af heildarlosun í Evrópusambandinu.

Þættir á borð við aukningu í notkun á endurnýjanlegra orkugjafa, áhrif kreppunnar og betri einangrun á heimilum fólks hafa haft sitt að segja um minnkun í losun gróðurhúsalofttegunda á tímabilinu. Ekki má þó gleyma áhrifum hlýrra loftslags sem spilar veigamikinn þátt, enda dregur hlýrra veðurfar úr kyndingarþörf heimila. Á árinu 2014, þegar vetur var óvenju hlýr, dróst losun gróðurhúsalofttegunda til að mynda saman um 4,1%.

Markmið Parísarsáttmálans
Þrátt fyrir þær jákvæðu tölur sem koma fram í skýrslunni er enn langt í land ef Evrópusambandið ætlar sér að ná markmiðum Parísarsáttmálans. Höfundar skýrslunnar segja að núverandi þróun sé ekki nægilega hröð til að ná þeim markmiðum og spýta þurfi í lófana ef það á að takast.