Mynd: Náttúrustofa Vesturlands
Mynd: Náttúrustofa Vesturlands

Alaskalúpínan er fyrir löngu orðin landlæg hér á Íslandi. Lúpínan er nokkuð falleg planta sem á tímabili var mikið notuð til að binda jarðveg á stöðum þar sem mikið landrof var. Lúpínan hefur svo sannarlega staðið undir þeim væntingum sem bornar voru til hennar og gott betur því nú er svo komið að plantan flokkast sem ágeng planta og erfitt hefur reynst að hafa stjórn á útbreiðslu hennar. Með öðrum orðum má segja að Lúpínan er þó nokkuð frek, og svæði þar sem hún tekur sér bólfestu eru oft snauð af öðrum plöntum, sem geta ekki lifað í skugga hávaxinnar lúpínunnar.

Af þessum sökum leita menn nú leiða til að minnka útbreiðslu lúpínunnar og hafa tilraunir staðið yfir víðs vegar um land þar sem reynt er að meta hvaða aðferð hentar best til að losna við þennan vágest. Ein slík rannsókn, sem framkvæmd var í Stykkishólmi af Náttúrustofu Vesturlands var birt í nýjasta hefti Náttúrufræðingsins. Í rannsókninni eru tvær aðferðir við eyðingu lúpínunnar bornar saman, þ.e. sláttur og eitrun.

Alls voru tilraunareitir verkefnisins 15, en þeir voru allir inná stóru svæði þar sem lúpínan myndaði þekju. Fimm reitanna voru ekkert meðhöndlaðir, fimm þeirra voru slegnir árlega og á fimm reitum var árlega eitrað fyrir lúpínunni. Gróðurþekja og fjölbreytileiki gróðurs var svo metinn ári eftir fyrstu meðhöndlun og svo aftur fimm árum frá fyrstu meðhöndlun.

Við lok rannsóknarinnar kom í ljós að tekist hafði að drepa lúpínubreiðuna á reitum sem meðhöndlaðir voru, bæði með eitri og slætti. Á þeim reitum þar sem lúpínan var slegin var framvinda gróðurfars komin mun lengra á veg en þar sem eitrað var. Margar skýringar gætu verið á því, til dæmis sú að þegar lúpínan er slegin þá verða eftir lífræn efni sem nýtast öðrum plöntum til næringar en einnig að eitrunin getur, þó varlega sé farið, haft áhrif á fleiri plöntur á svæðinu.

Þrátt fyrir mjög góðan árangur við að uppræta lúpínubreiðu ber þó að hafa í huga að fræforði lúpínunnar getur verið mikill í jarðvegi þar sem lúpina hefur vaxið. Þetta þýðir að lúpína getur tekið sig upp aftur og því er mikilvægt að fylgjast áfram með framvindu meðhöndlaðra svæða. Besta leiðin til að uppræta lúpínu er því að slá hana reglulega og fylgjast vel með mögulegri endurkomu hennar.