Mynd: Sundrop
Mynd: Sundrop

Ræktun matvæla fyrir mannfólkið getur verið ansi kostnaðarsöm fyrir umhverfið. Það kostar mikla orku að stilla af hitastig í gróðurhúsum auk þess sem plöntur þurfa mikið vatn til að vaxa og bera ávexti. Auðlindir á borð við hreint vatn og rafmagn eru ekki ótakmarkaðar í þessum heimi og því er nauðsynlegt að finna fleiri leiðir til ræktunar, líkt og Íslendingar hafa gert með því að nýta jarðvarma til ræktunar.

Ástralska fyrirtækið Sundrop hefur nú sett á laggirnar gróðurhús sem nýta sólina sem orkugjafa og sjó sem vatnsuppsprettu. Plönturnar fá þó ekki hreinan sjó að drekka heldur er saltinu náð úr með því að hita vatni, svo það gufi upp af söltunum. Sólarorkan en notuð við það ferli, en einnig er rafmagn sem fæst úr sólarorkunni notað til að stýra hitastigi gróðurhúsanna. Sundrop nemur ekki staðar þar heldur notast þau við kókoshnetuhýði í stað moldar, til að binda næringarefni fyrir plönturnar, sem þýðir að gróðurhúsin nota ekki dýrmætan jarðveg eða jarðsvæði fyrir ræktun sína.

Nú þegar er fyrirtækið farið að framleiða matvæli og telja þau að kostnaðurinn við framleiðsluna sé ekki mikið meiri en við hefðbundna framleiðslu. Enn á þó eftir að skoða önnur umhverfisáhrif framleiðslunnar svo sem áhrif sólarspeglanna á dýralíf í nágrenni gróðurhúsanna. Mögulega er hér þó komin framtíðarlausn á skorti matvælaframleiðanda á orku, vatni og jarðnæði.