Mynd: All You Need is Biology
Mynd: All You Need is Biology

Niðurstöður vísindamanna benda til þess að viðamesti kóralladauði sem orðið hefur á síðustu 18 árum hafi átt sér stað í Kóralrifinu mikla í Ástralíu, vegna óvenjulega mikils hita síðastliðið sumar. Vísindamenn áætla að bleiking hafi drepið 35% kóralla á norðanverðu og miðju rifinu.

Niðurstöðurnar koma í kjölfar rannsókna bæði neðansjávar og úr lofti sem framkvæmdar voru af vísindamönnum frá ARC Centre of Excellence for Coral Reef Studies sem birtu fréttatilkynningu um niðurstöðurnar í gær.

Enn sem komið er er ekki ljóst hver endanleg áhrif eru og segja vísindamennirnir að ástand rifsins sé misjafnt eftir svæðum. Meðaldánartíðni á svæðum við Cairns og sunnar er aðeins talin vera um 5% og er búist við því að kórallar á svæðinu nái sér á ný eftir nokkra mánuði. Staðan á norðanverðu og miðju rifinu er öllu verri þar sem um 35% kóralla hafa dáið, sumir hverjir allt að 100 ára gamlir, að því er kemur fram á vefsíðu Science.

Bleikingahrinur hafa þrisvar átt sér stað á síðustu 18 árum og er sú sem nú stendur yfir talin vera sú versta. Ástæðurnar má rekja til hlýnunar jarðar, að sögn rannsóknarhópsins.

Bleiking kóralla á sér stað við óeðlilegar aðstæður í umhverfi kórallanna, til dæmis þegar hitastig sjávar er hærra en vant er. Kórallarnir ýta þá frá sér ljóstillífandi þörunga sem verður til þess að þeir verða hvítir. Ef aðstæður verða ekki eðlilegar á ný getur bleikingin orðið varanlega og kórallarnir dáið.