Smalltooth-sawfish-in-shallow-water

Þótt ótrúlegt megi virðast hafa vísindamenn komist að því að kvenkyns sagfiskar í Flórída geta eignast afkvæmi án þess að nokkuð karldýr komi við sögu. Þetta er í fyrsta skipti sem slíkt hefur sést í villtu hryggdýri en meyfæðingar eru hins vegar algengar meðal hryggleysingja.

Vísindamenn komust að þessari merku uppgötvun þegar þeir rannsökuðu 190 sagfiskar af tegundinni Pristis pectinata í suður Flórída. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna hversu mikil innræktun væri í stofnunum á svæðinu, en tegundin er í útrýmingarhættu vegna ofveiði og búsvæðaeyðingar. Það kom þess vegna á óvart þegar í ljós kom að í sumum tilfellum ætti meyfæðing sér stað. Alls fundust sjö dýr sem höfðu fæðst með meyfæðingu og í einum stofninum voru meyfæðingar 3%. Svo virðist sem að fiskarnir séu að öllu leiti heilbrigðir.

Talið er að meyfæðing eigi sér stað þegar ófrjóvgað egg dregur í sig annað egg og þannig myndist afkvæmi sem hefur tvo nákvæmlega eins litningar. Meyfæðing er ekki mjög gott úrræði fyrir tegundir til lengri tíma litið enda takmarkar hún erfðafræðilegan fjölbreytileika tegundarinnar. Þessi óvenjulega aðferð við að fjölga sér gæti þó verið gagnleg fyrir tegundir sem neyðarúrræði til að hjálpa þeim við að forðast útdauða.