Mynd: All You Need is Biology
Mynd: All You Need is Biology

Í maí í fyrra bárust fréttir af miklum kóraldauða í Kóralrifinu mikla í Ástralíu þar sem í það minnsta 35% kóralla á norðanverðu og miðju rifinu drápust vegna bleikingar. Nú tæpu árið seinna hefur mikil bleiking átt sér stað á ný á 1.500 km löngu svæði.

Bleiking kóralla á sér stað við óeðlilegar aðstæður í umhverfi kórallanna, til dæmis þegar hitastig sjávar er hærra en vant er, líkt og er raunin nú. Kórallarnir ýta þá frá sér ljóstillífandi þörungum sem verður til þess að þeir verða hvítir. Ef aðstæður verða ekki eðlilegar á ný getur bleikingin orðið varanlega og kórallarnir dáið.

Terry Hughes, prófessor við James Cook University, sagði í samtali við BBC að slíkur atburður hafi átt sér stað fjórum sinnum síðan árið 1998. Aldrei áður hefur þó verið svo stutt á milli atburða og hafa vísindamenn miklar áhyggjur af því að rifið muni ekki geta náð sér á strik á ný.

Vegna þess hversu stutt er á milli kóralladauðans nú og í fyrra verður enn erfiðara en áður fyrir kóralrifið að komast í samt horf aftur og eru vísindamenn svartsýnir á framhaldið. Hughes bendir á mikilvægi þess að gripið sé til aðgerða tafarlaust til að sporna gegn frekari skaða.