Air Pollution Attacks Beijing Again

Bejing er ein mengaðast borg í heimi og að auki ein sú fjölmennasta. Í kringum ólympíuleikana sem fóru þar fram árið 2008 tóku stjórnvöld loftmengunina föstum tökum og takmörkuðu meðal annars umferð bíla og minnkuðu framleiðslu í mengandi verksmiðjum svo eitthvað sé nefnt. Þessar aðgerðir leiddu til stórkostlegra breytinga á loftgæðum borgarinnar og minnkaði t.d. styrkur brennisteinsdíoxíðs um 60%, kolefnismónoxíðs um 48% og niturdíoxíðs um 43%. Í kjölfarið hafa vísindamenn svo spurt hvaða áhrif þessar stórvægilegu breytingar höfðu á heilsu borgarbúa.

Einn af mælikvörðunum sem ákveðið var að prófa var fæðingaþyngd nýbura. Vísindahópur við University of Rochester tók saman tölur um fæðingaþyngd nýbura mæðra sem komnar voru á áttunda mánuð þegar mengunin minnkaði. Þær tölur voru svo bornar saman við þyngd nýbura sem voru fædd á sama tíma árs, árin á undan eða eftir (2007 og 2009). Samtals voru 83.672 nýburar mældir í þessari rannsókn sem skilaði þeim niðurstöðum að mæður sem kláruðu meðgöngu sína í þokkalega ómenguðu loft eignuðust marktækt stærri börn en þær sem áttu ekki kost á almennilegum loftgæðum.

Þessar niðurstöður sýna að loftmengun hefur gríðarleg áhrif á lýðheilsu, eins og fleiri rannsóknir hafa reyndar margoft sýnt. Sem dæmi voru aðstæðurnar sem mynduðust í kringum ólympíuleikana 2008 notaðar til að skoða áhrif loftmengunar á hjarta- og æðasjúkdóma, en slíkum tilfellum fækkaði töluvert í kjölfar betri loftgæða.

Mikilvægasta ályktunin sem má draga af þessum rannsóknum er líklega sú að þrátt fyrir gríðarlega loftmengun í borginni þá er ekki öll von úti og vel hægt að snúa þessum áhrifum við, með smá átaki. Það skilar sér greinilega fljótt í betri lýðheilsu þar sem loftgæði Bejing löguðust einungis í 6-7 vikur meðan á átakinu stóð. 6-7 vikur virðast ekki sérlega langur tími en nægjanlega langur er hann þó til að mælanlegar breytingar verði á fæðingarþyngd barna sem njóta þess að klára að þroskast við betri aðstæður.