Mynd: Dennis Skoghsbergh
Mynd: Dennis Skoghsbergh

Hrægammar fá oft hlutverk vonda kallsins í teiknimyndum og satt að segja eru þeir fremur ófrýnilegir. En það er víst ekki útlitið sem skiptir höfuðmáli því hrægammar gegna mikilvægu hlutverki fyrir vistkerfið, hvaða álit sem við kunnum að hafa á þeim.

Hrægammar hafa nokkra sérstöðu meðal hrææta, þeir éta eingöngu hræ og þeir eru yfirleitt fyrstir á vettvang þegar hræ liggur fyrir rotnun. Þetta setur hrægammana í sérstaka stöðu innan vistkerfisins. Þeir stjórna með nokkru móti stofnstærð annarra hrææta, séu nægilega margir hrægammar til staðar klárast hræin fljótt og minna verður eftir af æti fyrir hina. Sú staðreynd að hrægammarnir koma fyrstir að þýðir að lítil rotnun hefur átt sér stað, svo fáar bakteríur eða veirur komast inn fyrir kerfi hrægammanna. Að auki, þar sem hrægammar éta bara hræ, þá hafa þeir fyrir vikið sterkari varnir gegn sýklunum svo þeir virka sem nokkurs konar hindri á flæði sýkla frá dauðum dýrum til annarra tegunda eins og manna.

Þegar hrægömmum fækkar verður hlaðborð annarra hrææta stærra og hlaðnara. Þá er ekki mikið því til fyrirstöðu að hrææturnar fjölgi sér meira sem eykur aftur líkurnar á því að þær leiti skjóls í borgum og bæum og setji fólk þannig í smithættu.

Fækkun hrægamma hefur áður haft stórvægileg áhrif á vistkerfi manna, til dæmis í Bandaríkjunum og Indlandi. Þar fækkaði hrægömmum nægilega mikið til að hafa áhrif á stofnstærð villtra hunda. Þegar hundunum fjölgaði fór tilfellum hundaæðis í mönnum einnig að fjölga og úr varð, a.m.k. í Indlandi faraldur sem með miklu átaki tókst að lokum að ná valdi á.

Sú hætta sem nú blasir við hrægömmum er aðallega í ríkjunum sunnan Sahara, en þar koma veiðiþjófar sterkir til leiks eins og svo oft áður. Veiðiþjófarnir nýta nú oft eitur til að drepa dýrin sem verða fyrir barðinu á þeim. Með því móti verður eftir dýrahræ sem veiðiþjófarnir vita að hrægammarnir eru fljótir að þefa uppi og eyða ummerkjum um. En um leið og hrægammarnir éta dýr sem deyja á þennan hátt kemst eitrið í þeirra eigin líkama sem getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér og hrægammarnir deyja einnig.

Saga hrægammanna endurspeglar svo vel hvernig allt vistkerfið er samtvinnað. Tegundin maðurinn, þó hún virðist allsráðandi í heiminum, er ekki eini leikmaðurinn í kerfinu og því skiptir máli að við umgöngumst náttúruna með virðingu. Ef ekki fyrir náttúruna sjálfa og dýrin sem þar búa þá að minnsta kosti fyrir okkur sjálf, því ójafnvægi sem skapast af okkar völdum mun að öllum líkindum koma aftur í bakið á okkur með mun stærri afleiðingum en við kannski getum spáð fyrir um.

Heimildir:
Biological Conservation
The University of Utah