ap_cecil_mm_150730_16x9_992

Svokallaðar minjaveiðar (e. trophy hunting) þar sem veiðimenn veiða dýr og halda öllum eða hluta líkama þeirra eftir sem einskonar minjagrip eru nokkuð vinsælt áhugamál. Sérstaklega eru slíkir veiðimenn áhugasamir um að veiða tignarleg rándýr líkt og ljón og er ljónið Cecil líklega frægasta ljónið sem varð minjaveiðimönnum að bráð.

Fram að þessu hefur lítið verið vitað um áhrif minjveiða á dýrastofna í Afríku en tvær greinar varpa nú ljósi á ástæðurnar sem liggja að baki.

88% karlkyns ljóna drepin af mönnum
Fyrri greinin birtist í tímaritinu Journal of Applied Ecology og kannar ástæður dauðsfalla ljóna í Hwange þjóðgarðinum í Zimbabwe.

Rannsóknarhópurinn kannaði orsök dauðsfalla 206 ljóna í þjóðgarðinum á árunum 1999-2012. Niðurstöðurnar voru nokkuð sláandi því rekja mátti 88% dauðsfalla karlkyns ljóna til manna og var meirihluti þeirra af völdum minjaveiðimanna.

Um tvo þriðju dauðsfalla ljónynja mátti rekja til manna en helsti munurinn þar á var að hluti drápanna voru varnaraðgerðir vegna árása ljónynjanna á húsdýr. Auk þess festist hluti ljónynjanna í snörum sem ekki voru ætlaðar þeim.

Höfundar greinarinnar segja ljónin gjarnan freistar til að sækja í svæði þar sem minjaveiðar fara fram vegna þess hve fátt mannfólk er þar að finna en mikla bráð. Ljónin hafi hins vegar lært að forðast svæði þar sem landbúnaður er til staðar vegna yfirvofandi hættu frá bændum.

Víðtæk áhrif
Seinni greinin birtist í tímaritinu Biological Conservation og metur áhrif minjaveiða í þjóðgarðinum á tímabilum þar sem veiðiálag var mismunandi.

Það kemur líklega ekki á óvart að þegar um miklar veiðar var að ræða fækkaði karlkyns ljónum mikið. Vegna stöðu karlkyns ljóna í hjörðinni hefur dauði forystuljónsins mikil áhrif á ljónahjörðina í heild sinni og neikvæð áhrif á ljónynjur og ljónsunga. Þetta má meðal annars rekja til þess að þegar nýtt ljón tekur við ljónahjörð drepur það gjarnan þá ljónsunga sem fyrir eru til að tryggja sér alfarið réttinn til mökunar.

Þegar um takmörkun á veiðum með kvóta var að ræða voru stofnar nokkuð fljótir að ná sér á strik eftir álagspunkta.

Eiga minjaveiðar rétt á sér?
Rök með minjaveiðum hafa gjarnan verið þau að gróði frá veiðunum sé nýttur í að vernda stofna þeirra dýra sem veidd eru. Niðurstöður greinanna vekja þó upp spurningar um hvort minjaveiðar eigi yfir höfuð rétt á sér og ef svo er í hversu miklum mæli.