Loftslagsbreytingar eru vafalaust ein stærsta ógnin sem stafar að mannkyninu og öðrum íbúum Jarðar á næstu áratugum og flest viljum við leggja okkar af mörkum til að sporna gegn þeim.

Við sem einstaklingar getum gert ýmislegt til að draga úr kolefnisfótspori okkar, til dæmis getum við endurunnið, keyrt minna og nýtt endurnýjanlega orkugjafa þegar hægt er. Það er þó eitt sem dregur úr kolefnisfótspori einstaklings hvað mest: að eignast færri börn.

Þetta kemur meðal annars fram í niðurstöðum rannsóknar sem birtar voru í sumar. Rannsóknin var unnin af vísindamönnum í Kanada og Svíþjóð sem könnuðu áhrif 39 lífstílsþátta með tilliti til þess hverjir væru best til þess fallnir að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Fjórir þættir áhrifamestir

Í ljós kom að sá þáttur sem minnkaði kolefnisfótspor einstaklings mest var að eignast einu færra barn. Þar á eftir voru vænlegustu kostirnir að lifa bíllausum lífstíl, forðast það að ferðast með flugi og að borða plöntumiðað mataræði.

Það að borða plöntumiðað mataræði dregur samkvæmt niðurstöðunum úr kolefnisfótspori einstaklings um því jafngildir 0,8 tonnum koltvísýringi á ári, hver flugferð fram og til baka yfir Atlantshafið jafngildir um 1,6 tonnum, bíllaus lífstíll, 4 tonnum en það að eignast einu færra barn jafngildir um 58,6 tonnum á ári. Sú tala á við börn í hinum vestræna heimi og telja vísindamennirnir að hægt væri að draga verulega úr henni með því að draga úr heildarlosun þjóðarinnar á öðrum sviðum.

Til að setja þetta í samhengi taka vísindamennirnir endurvinnslu sem dæmi. Mikil áhersla er lögð á að heimili endurvinni sorp þegar hægt er og er það mikilvægt skref sem ekki má vanmeta. Áhrif þess blikna þó í samanburði við þá fjóra þætti sem nefndir eru hér að ofan.

Það að hætta neyslu dýraafurða í eitt ár dregur til að mynda fjórfalt meira úr losun gróðurhúsalofttegunda en það að endurvinna í eitt ár. Það að sleppa einu flugi fram og til baka yfir Atlantshafið á ári dregur átta sinnum meira úr losun og bíllaus lífstíll 11 sinnum meira.

Stjórnvöld hvetji almenning til lífstílsbreytinga

Seth Wynes, annar höfundur greinarinnar bendir á í samtali við NBC News að rannsóknin sé ekki til þess fallin að hvetja fólk til að eignast ekki börn, enda sé sú ákvörðun mjög persónuleg. Aftur á móti vonast hann til þess að með þessum upplýsingum sé fólk upplýstara um þær ákvarðir sem það tekur varðandi fjölskyldustærð og aðra þætti sem hafa áhrif á kolefnisfótspor þeirra.

Höfundar greinarinnar telja að stjórnvöld ættu að leggja áherslu á að hvetja almenning til að breyta þáttum í hegðun sinni sem hafa mikil áhrif á kolefnisfótspor þeirra. Þannig er til dæmis nokkuð auðvelt að draga úr neyslu á dýraafurðum og minnka notkun á einkabílnum án þess að það hafa neikvæð áhrif á lífsgæði og getur það jafnvel haft jákvæð áhrif á heilsuna.

Rannsóknin var unnin af vísindamönnum við háskólann í Lundi og University of British Columbia og birtust niðurstöðurnar í tímaritinu Environmental Research Letters.