27-Dindim-Penguin

Árið 2011 fann hinn brasilíski Joao Pereira de Souza mörgæs sem var þakin olíu og glorsoltin við heimili sitt á eyju út af strönd Rio de Janeiro. de Souza tók mörgæsina með sér heim og kom henni til heilsu á ný. Mörgæsin fékk nafnið Dindim og dvaldi hjá de Souza í 11 mánuði áður en hún hvarf út í hafið.

Sagan endar þó ekki þar því síðan þá hefur Dindim synt að því er talið er 3.000 til 5.000 kílómetra á hverju ári til að heimsækja bjargvætt sinn. Að því er kemur fram á vefsíðu The Independent eyðir mörgæsin allt að átta mánuðum hjá de Souza áður en hún hverfur á braut til varpstöðva tegundarinnar við strendur suður Chile og Argentínu.

Vinasamband de Souza er einstakt en á meðan mörgæsin dvelur hjá honum má enginn annar snerta hana. de Souza má aftur á móti baða Dindim og mata hann auk þess sem hann liggur gjarnan í fanginu á honum.

Dindim er af tegundinni Spheniscus magellanicus sem lifir við strendur Argentínu, Chile og Falklandseyja auk þess sem hún sést einstaka sinnum norðar, til dæmis við Rio de Janeiro.

Líffræðingurinn Joao Paulo Krajewski, sem tók viðtal við de Souza fyrir Globo TV, segist aldrei hafa séð neitt í líkindum við þetta vinasamband áður. Hann telur að Dindim telji sig vera hluta af fjölskyldu de Souza og líklega telji hann að de Souza sé sjálfur mörgæs.

Hér að neðan má síðan sjá frétt frá Wall Street Journal um málið: