Mynd: Lonely Planet
Mynd: Lonely Planet

Stykkishólmur er sennilega eina sveitafélagið á landinu sem hefur tekið þeim róttæku breytingum að vera plastpokalaust. Aðdáendur Landans hafa eflaust tekið eftir því þegar framtakið rataði þangað, en verkefninu var hrint í framkvæmd árið 2014. Þann 12. september 2014 var plastpokinn kvaddur með fjölmennri hátíð.

Forsvarsmenn verkefnisins kynna nú niðurstöður þessara skemmtilegu breytinga á líffræðiráðstefnunni sem fer fram um helgina í Öskju, Sturlugötu 7.

Ein af afurðum verkefnisins eru myndbönd um verkefnið sem tóku þátt í myndbandasamkeppni tengdu verkefninu. Myndböndin eru opin öllum á Youtube, Verðlaunamyndbandið sést hér að neðan, en höfundur þess er Aron Alexander Þorvarðarson.

Verkefnið var allt saman unnið í samvinnu við fyrirtæki og íbúa í Stykkishólmi í stað þess að setja boð og bönn var unnið að verkefninu með fræðslu og umfjöllun um plastnotkun. Flestir íbúar og fyrirtæki sveitafélagsins eru hæstánægð með breytinguna, en slíkar breytingar væri auðvitað ekki hægt að framkvæma án þeirra stuðnings.