Mynd: Wired.co.uk
Mynd: Wired.co.uk

Nashyrningahorn eru ekki bara dýrmæt fyrir dýrið sem ber, en margir leggja sig í lífsháska í þeim tilgangi að ná hornunum og selja. Þetta er gömul saga og ný sem yfirvöld margra Afríkuríkja hafa barist við í áratugi.

Nashyrningar eru í mörgum tilfellum ekki deyddir heldur eru hornin skorin af þeim og dýrunum svo sleppt. Fyrir villt dýr geta þessar aðstæður verið mun verri en dauðinn ekki bara vegna þess að hornin eru nauðsynlegt varnartól heldur einnig vegna þess að sárin gróa ekki svo glatt. Dýrin fá auðveldlega sýkingar í sárin, missa allan mátt og deyja svo kvalafullum og mjög hægum dauðdaga.

Í síðustu viku sendi Edna Molewa, umhverfisráðherra Suður Afríku frá sér ánægjulega tilkynningu, þess efnis að í fyrsta skipti í áratug fækkar nashyrningum með afskorin horn milli ára. Talningar á árinu 2014 sýndu að 1215 dýr fundust með afskorin horn, en árið 2015 hafði þeim fækkað niður í 1175. Þó fækkunin sé ekki stórvægileg þá teljur Edna Molewa að hana megi rekja til stóraukins eftirlits í kringum þjóðgarða þar sem nashyrningarnir búa ásamt tilfærslum hjarðanna.

Þó þetta séu vissulega mikil gleðitíðindi þá er baráttunni hvergi nærri lokið, á síðasta ári fundust yfir 1000 dýr með afskorin horn samkvæmt talningum á vegum Ednu Molewa. Sennilega þurfa skilaboðin helst að ná til þeirra sem kaupa afurðirnar af hornunum en stór hluti hornanna er seldur í óhefðbundnar lækningar þar sem hornin eru talin hafa áhrif m.a. á krabbamein og þynnku. Engar rannsóknir hafa sýnt fram á þessa meintu virkni.

Á síðasta ári tókst vísindamönnum þó að framleiða hornin með líftækni svo vonir eru bundnar við að slík horn svari að einhverju leiti eftirspurninni á markaði.