Mynd: RedOrbit
Mynd: RedOrbit

Nýlega bárust fregnir af því að árangur væri loks í sjónmáli í aðgerðum mannanna gegn gatinu í ósonlaginu. Árangurinn má rekja til alþjóðlegra aðgerða sem tóku gildi árið 1987 og ganga almennt undir nafninu „The Montreal Protocol“ eða „Montreal verklagið“. Með þessu verklagi tókst hægt og bítandi að losa andrúmsloftið við svokölluð klóróflúorkolefni (CFC).

Þetta eru vissulega gleðitíðindi sem ber að fagna, en á sama tíma verðum við að muna að baráttunni er ekki lokið. Nýleg rannsókn sem birtist í Nature Communications sýnir að á meðan við höfum dregið verulega úr losun CFC efna útí andrúmsloftið hefur styrkur annarra efna aukist.

Efnið sem um ræðir nú kallast díklórómetan. Þessi gastegund mældist í örlitlu magni í andrúmsloftinu árið 1987, þegar Montral verklagið var samþykkt og því fellur hún ekki undir þess hatt. Í dag hefur styrkur efnisins hins vegar hækkað mjög skart og á einungis 10 árum hefur styrkur gassins tvöfaldast.

Díklórómetan hefur þann eiginleika að geta hvarfast við óson-sameindirnar og hindrað þannig eðlilega myndun ósons í hvolfinu sem kennt er við það. Líklegt er að ef styrkur díklórómetans heldur áfram að vaxa á sama hraða og undanfarið mun ósonlagið ekki ná sér fyrr en í besta falli á fyrri part næstu aldar eða í versta falli, alls ekki. Umræður standa nú yfir um hvort breyta eigi verklagi varðandi díklórómetan og fella það undir Montreal verklagið.

Þessi rannsókn er góð áminning um það að við verðum alltaf að passa uppá náttúruna okkar og ganga vel um hana, jafnvel þó við getum lært af mistökum fortíðarinnar er ekki þar með sagt að nútíminn sé gallalaus.