jupiter-four moons

Geimurinn er gríðarlega stór og jafnvel þær plánetur sem standa jörðinni næst eru ókönnuð svæði. Stjarneðlisfræðingar vinna þó að því að bæta alla okkar tækni svo rannsóknir í geimnum verði mögulegar. Nýlega birtist grein í The Astronomical Journal þar sem enn ein viðbótin í flóruna var kynnt til sögunnar.

Um er að ræða risa stjörnukíki sem notast við tvo stóra spegla sem saman ná að fanga mynd af geimnum eins og um einn risastóran spegil væri að ræða. Með þessum kíki, sem kallast Large Binocular Telescope (LBT), náði vísindahópurinn stórkostlegum myndum af tunglinu Io sem er eitt af fjórum stærstu tunglum Júpíters og einnig það innsta.

Á Io er m.a. eldfjallið Loki, sem heitir eftir ás úr norrænni goðafræði. Með kíkinum náðust magnaðar myndir af eldfjallinu. Eldfjallið myndar nokkurs konar skál, þar sem hraun storknar efst í skálinni en brotnar svo ofan í nýja hraunið svo um leið gefur hraunið frá sér gífurlegan hita sem hægt hefur verið að fylgjast með frá jörðu.

Io er sennilega virkasti hnötturinn í nágrenni okkar en tunglið er alsett eldfjöllum sem vonandi verður hægt að ná góðum myndum af í komandi framtíð með nýrri tækni. Kíkirinn sem um ræður hefur verið í u.þ.b. 15 ára þróunarvinnu sem er nú loks að skila sér.

Hér að neðan má sjá myndir sem teknar hafa verið með risakíkinum settar saman í stutt myndbrot. Myndbrotið var nýlega birt á heimasíðu University of Arizona

Io