Mynd: Dr. Edward Louis Jr.

Madagaskar er skemmtileg teiknimynd sem var frumsýnd árið 2005. Þessi teiknimynd er ekkert sérstaklega merkileg frá vísindalegu sjónarhorni en hún heitir sama nafni og eyjan sem liggur austan við Afríku, í Indlandshafi.

Eyjan er stórkostlegt vistkerfi, þar sem eyjan er einangruð frá meginlandinu og þróun dýra þar hefur farið aðra leið en það sem finnst í álfunni sem hún tilheyrir. Eitt af því sem heillar sérstaklega við Madagaskar eru lemúrarnir, en lemúrar eru tegund prímata sem finnst á eyjunni.

Erfðafræðirannsóknir síðari ára hafa leitt í ljós að tegundafjölbreytileiki lemúra á Madagaskar er mun meiri en áður var talið. Tegundir sem mögulega deila svipuðum líkamlegum einkennum eru alls ekki sama tegundin, þegar erfðaefni þeirra er skoðað, sem þýðir að þær geta ekki æxlast og eignast afkvæmi.

Einni nýrri tegund lemúra var lýst í nýjasta hefti Primate Conservation. Þessi nýja tegund hefur verið nefnd Cheirogaleus grovesi til heiðurs dýrafræðingnum Colin Groves, sem helgaði líf sitt rannsóknum á prímötum en lést í fyrra.

Eins og sést á meðfylgjandi myndum er Cheirogaleus grovesi að öllum líkindum sætasti lemúrinn sem hingað til hefur verið lýst. Tegundin er agnarlítil, enda úr hópi dverg-lemúra, og verður að meðaltali 17 cm stór en þá er ekki meðtalið 28 cm skottið.

Hópurinn sem stendur fyrir rannsókninni er einnig í forsvari fyrir verndun vistkerfa lemúranna en því miður eru margar lemúrategundir í hættu vegna ágangs á heimkynni þeirra og spila loftslagsbreytingar þar stórt hlutverk.

Meðan þið virðið þetta ofurkrútt fyrir ykkur er sniðugt að hugsa um hvernig þið getið lagt ykkar af mörkum til að draga úr loftslagsbreytingum og auka lífslíkur lemúranna.

Mynd: Dr. Edward Louis Jr.