Mynd: National Geographic
Mynd: National Geographic

Fyrir okkur mannfólkið og mjög margar aðrar lífverur er 37°C og hlutlaust sýrustig forsenda þess að okkur líði vel eða yfirhöfuð lifum af. Við þolum illa breyttan styrk lofttegunda í andrúmsloftinu og að auki má loftrþýstingurinn ekki breytast teljanlega án þess að við finnum fyrir því. Það er því erfitt að setja sig í spor lífvera sem kallast „extremophile“ eða öfga lífverur. Slíkar lífverur vilja bara vera í mjög háum hita, sumar í yfir 100°C og þær lifa í ótrúlegum styrk efna sem við teljum eitruð.

Í slíku umhverfi finnast að langmestu leiti örverur, bakteríur eða einfrumungar sem hafa aðlagað sig að eitruðu umhverfi sínu. Nú á dögunum var birt grein í Zootaxa þar sem nýrri tegund úr dimmum helli í Colarado er lýst. Hellirinn er ekki bara dimmur heldur er hann fullur af brennisteinssamböndum sem gera andrúmsloftið þar eitrað og vökvann sem þéttist í loftinu að ætandi brennisteinssýru.

Það sem er kannski sérstaklega merkilegt við nýju tegundina sem líst var í Zootaxa er að hún er ekki örvera heldur fjölfruma ormar sem lifa saman í nokkurs konar ormaknippum. Í hellinum finnast nær örugglega ógrynni af örverum líka, bakteríum sem nýta ólífræn efnasambönd sem orkugjafa og eru þannig fæða fyrir ormana og mögulega fleiri lífverur í þessum baneitraða helli.

Í myndbandinu hér að neðan má sjá bæði ormana og hellinn ótrúlega, en myndbandið er upphaflega birt á heimasíðu National Geographic.