Líkir?
Líkir?

Eftir miklar rannsóknir hefur ný tegund gibbona verið skilgreind í Kína. Tegundin hefur fengið hið skemmtilega nafn “Skywalker hoolock gibbon”. Nafnið er bæði vísun í að kínversku tákn latneska heitis tegundarinnar sem merkja “hreyfing himinsins” og nafn Loga Geimgengils (e. Luke Skywalker) úr hinum vinsælu Stjörnustríðsmyndum.

Mark Hamill sem lék Loga Geimgengil í Stjörnustríðsmyndunum er að vonum ánægður með nýju tegundina
Mark Hamill sem leikur Loga Geimgengil í Stjörnustríðsmyndunum er að vonum ánægður með nýju tegundina

Hátt í 20 tegundir gibbona eru til og virðast þeir í fyrstu nokkuð apalegir. Raunin er þó sú að gibbonar eru af flestum flokkaðir sem mannapar líkt og simpansar og górillur.

Nýja tegundin á heimkynni sín í Yunnan héraði Kína og var þar til nýlega talin til hoolock gibbona sem finnast í Bangladesh, Indlandi, Kína og Myanmar. Eftir miklar rannsóknir kom þó í ljós að um aðskyldar tegundir væri að ræða. „Stjörnustríðs“ gibbonarnir hafa merkingar í andliti sem eru frábrugðnar öðrum hoolock gibbonum auk þess sem söngur sem þeir nota til að merkja sér svæði og tengjast öðrum gibbonum er annar.

Latneska heiti nýju tegundarinnar er Hoolock tianxing en í daglegu tali verða þeir, líkt og áður sagði, kallaðir Skywalker hoolock gibbon. Þó lítið sé vitað um stofnstærð tegundarinnar enn sem komið er er talið að tegundin telji aðeins um 200 einstaklinga og óttast vísindamenn því að tegundin komi til með að deyja út.

Niðurstöður rannsóknarhópsins voru birtar í American Journal of Primatology.