toucan

IFL Science og BBC sögðu frá því nýverið að óheppinn toucan fugl í Costa Rica lenti í því í janúar að nokkur ungmenni réðust á hann. Fuglinn særðist illa og missti stórann hluta af goggnum í árásinni.

Árásin vakti hörð viðbrögð meðal heimamanna sem tóku ástfóstri við fuglinn og nefndu hann Grecia. Í kjölfarið fór af stað herferð á hópfjármögnunarsíðunni Indiegogo til þess að safna fyrir nýjum gogg og var kassamerkið #savethetoucan notað á samfélagsmiðlum. Um 7.000 dollarar, tæplega milljón íslenskra króna, söfnuðust á stuttum tíma og nú stendur til að notast við þrívíddarprentara til að smíða nýjan gogg á Grecia. Fjögur fyrirtæki í Costa Rica hafa boðist til að taka þátt í verkefninu.

Það er þó enn óvíst um örlög fuglsins þar sem slík aðgerð er flókin og sá möguleiki er fyrir hendi að Grecia hafni goggnum. Það er því mikilvægt að nýju goggurinn sé bæði léttur og harðger en auk þess þarf að vera hægt að skipta honum út þar sem að Grecia er ekki fullvaxinn.