dc668873476f18f61408d4dbdff9fada

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna hefur stækkað hafverndarsvæði við Hawaii eyjar og með því gert svæðið að stærsta verndarsvæði Jarðar. Vernadsvæðið nefnist Papahānaumokuākea Marine National Monument og nær yfir 1.508.870 ferkílómetra sem býr yfir afar fjölbreyttu lífríki. Á svæðinu er að finna um 7.000 tegundir lífvera, meðal annars hnúfubaka, fjölda kóralla, sæskjaldbökur og fiska.

Að sögn Brian Schatz, öldungardeildarþingmanns demókrata á Hawaii, er aðgerðin ein sú mikilvægasta sem Bandaríkjaforseti hefur framkvæmt. Verndun svæðisins kemur meðal annars til með að leyfa stofnum túnfíska að ná sér á strik, efla líffræðilegan fjölbreytileika og berjast gegn hlýnun Jarðar.

Verndarsvæðið var fyrst stofnað af George W. Bush árið 2006 og var þá 362.073 ferkílómetrar á stærð og árið 2010 var svæðið sett á heimsminjaskrá UNESCO. Með stækkun svæðisins er það stærra en allir þjóðgarðar Bandaríkjanna til samans eða um tvöfalt landsvæði Texas fylkis.