biofuels

Mikil keppni stendur yfir um að finna hentuga leið til að framleiða eldsneyti sem gæti leyst jarðolíuna af hólmi. Lífeldsneyti er ein þeirra leiða sem mikið hefur verið skoðuð og er þá í flestum tilfellum notast við örverur. Örverurnar þurfa kolefnisgjafa, einfaldar sykrur, til að umbreyta í eldsneyti. Best þykir að láta þær nýta eitthvað sem ekki er hægt að nota í matvælaframleiðsu. Bambus eða tré þykja efnileg en aðalbyggingaefni þeirra er sellulósi. Sellulósann þarf að melta með ensímum til að fá einfaldar sykrur sem notaðar eru í rækt, til dæmis fyrir bakteríur sem geta myndað etanól. Að auki þarf svo að bæta áburði við ræktina sem köfnunarefnisgjafa, svo sem mestar heimtur verði af eldsneytinu.

Nýlega birtist grein í PNAS, þar sem notast er við bacteríuna Zymomonas mobilis til að framleiða etanól úr sellulósa, án þess að áburði sé bætt útí ræktina. Það sem Zymomonas mobilis hefur fram yfir aðrar örverur sem hafa verið notaðar í svipuðum tilgangi er að hún nýtir köfnunarefnið á gasformi. Þar með er hægt að spara stórar fjárhæðir sem annars eru notaðar í áburðarkaup.

Vandkvæði gætu þó fylgt framleiðslu með Zymomonas mobilis á lífeldsneyti. Til dæmis gæti þurft að dæla köfnunarefni í ræktina á gasformi sem er einnig dýrt. Að auki á enn eftir að minnka kostnað og fyrirhöfn við að finna betri efnivið í kolefnisgjafa, því ræktun á bambus og tjám veltur á góðu jarðnæði sem og miklum áburði. En þessar rannsóknir gætu þó verið skref í átt að ódýrara lífeldsneyti.

Hægt er að lesa frétt um málið hér