Hið gamalkunna stef, hlýnun jarðar, hljómar enn í eyrum okkar. Margir hafa eflaust fengið nóg af því fyrir löngu síðan að lesa um yfirvofandi hamfarir, en nú er einmitt tíminn til að hlusta.

Vaxandi hitastig jarðar og skilningur okkar á því hvaða afleiðingar þetta mun hafa er nú loks komið á það stig að við getum ekki lengur skotið skollaeyrum við þegar við heyrum minnst á hlýnun jarðar.

Margvísleg áhrif

Þó hlýnun jarðar sé alvarleg er hún aðeins afleiðing af því stóra vandamáli sem við stöndum frammi fyrir, þ.e. losun gróðurhúsalofttegunda útí andrúmsloftið. Slík losun hefur margvíslegar afleiðingar, fyrir utan þær sem verða á hitastig jarðarinnar.

Aukinn styrkur koltvíoxíðs, sem er ein þeirra lofttegunda sem stuðla að hlýnun jarðar, hefur áhrif á sýrustig sjávar. Þegar hafið gleypir í sig aukið magn koltvíoxíðs myndast kolsýra í meira magni, sem gerir það að verkum að sýrustigið hækkar nægilega mikið til að hafa áhrif á lífverur hafsins.

Koltvíoxíðstyrkurinn hefur þó líka áhrif á þurru landi. Má þá nefna dæmi um breytingar í vistkerfum nytjaplantna. Með auknum styrk koltvíoxíðs taka plöntu upp meira magn af því og möguleiki er á að slíkt hafi áhrif á næringarinnihald þeirra ávaxta og aldina sem við nýtum af plöntunni.

Gróðurhúsaáhrifin

Allar þær lofttegundir sem teljast til gróðurhúsalofttegunda mynda nokkurs konar kúpul utan um jörðina. Þessi kúpull grípur endurkast sólarinnar frá jörðinni, svo geislarnir sem hefðu undir venjulegum kringumstæðum farið útí geim, kastast aftur til jarðar og hita þannig jörðina.

Afleiðingarnar af hækkandi meðalhitastigi jarðar eru margvísleg. Yfirborð sjávar breytist vegna bráðnunar jökla sem hefur einnig áhrif á seltustigið í sjónum þar sem gífurlegt magn af ferskvatni blandast nú skyndilega við. Vistkerfi á láði og legi þurfa að aðlagast nýjum umhverfisaðstæðum og það þarf að gerast mjög hratt, mun hraðar en þróun dýrategunda ræður við.

Nú þegar sjáum við afleiðingarnar í minnkandi tegundafjölbreytileika jarðar. Dýr sem treysta á umhverfishitastigið til að ákvarða kyn afkvæma sinna, eins og skjaldbökur, eru nú þegar í vandræðum með hlutfall kynjanna innan stofnsins.

Til að nefna nærtækari dæmi þá hefur tegundafjölbreytileiki við strendur Íslands gengið í gegnum óvenju stórar sveiflur sem við sjáum greinilega með minnkandi stofnstærð fugla á borð við lundann. Slíkar breytingar eru alveg jafn ógnvænlegar og þær hljóma því mjög margar dýrategundir sem lifa hér við land eru undirstoð efnahags þjóðar okkar.

Áhrif á menn

“Megum við ekki alveg við örlítið hærri meðalhita á Íslandi, hér er hvort sem er alltaf skítkalt?” Þessu heyrum við oft fleygt þegar hnattræna hlýnun ber á góma og mikið væri það nú yndislegt ef þetta væri satt. Raunar er það þannig a Ísland er ekki alltaf fýsilegt til að búa á, að minnsta kosti ekki fyrir kuldaskræfur. En það er þó svo margt annað sem spilar inní.

Til að byrja með má nefna að þó að meðahitastigið á Íslandi mætti vel vera hærra (það er að segja ef við erum einungis að hugsa um eina dýrategund, manninn) þá hefur hækkun á meðalhitastigi á flestum öðrum stöðum í heiminum ekki þau áhrif að hitastigið er loks bærilegt. Þvert á móti yrði það sennilega óbærilegt.

Það þekkja flestir sem hafa upplifað 35°C hita að í slíkum hita getur verið erfitt að framkvæma nokkurn hlut. Tilhugsunin um að sitja í steikjandi hita á ströndinni gefur ekki alveg raunhæfa mynd af því hvernig er að sinna vinnu og almennum skildum í svona veðri. Það kemur því ekki á óvart að ofbeldistengdum atvikum fjölgar þegar hitastigið fer uppúr öllu valdi.

Hlýnun jarðar og aukið ofbeldi

Aukinn lofthiti getur haft bein áhrif á hegðun manna, þ.e. vegna óþæginda sem hitinn veldur er líklegra að fólk missi stjórn á skapi sínu. Þessar beinu afleiðingar eru kannski augljósar og má ekki vanmeta en hlýnun jarðar getur samt sem áður einnig haft óbein áhrif á aukið ofbeldi í heiminum.

Eins og líst er hér að framan hefur hækkandi hitastig jarðar neikvæð áhrif á vistkerfi jarðar, þar á meðal vistkerfi mannsins. Aukin óstöðugleiki í veðri veldur minnkandi fæðuframboði sem gerir það að verkum að ákveðin svæði á jarðkringlunni verða óbyggileg.

Umhverfisflóttamenn

Því miður mun þetta að öllum líkindum búa til aukna togstreiti milli samfélagshópa sem eru að reyna að nýta sama landsvæðið. Við sjáum þetta nú þegar í samskiptum þjóða við þjóðarbrot sem neyðast til að flýja heimili sín af margvíslegum ástæðum.

Viðbrögð Evrópubúa við þeim flóttamönnum sem nú streyma til okkar frá Afríku og Asíu gefa því miður ekki tilefni til bjartsýni. Það sama gildir um fréttaflutning frá Bandaríkjunum. Víða er flóttafólki komið fyrir í búðum eða þeim hópað á ákveðin svæði, þar sem þau bíða meðan við hin vonum að vandamálið hverfi bara.

Þau fá þess vegna ekki nægjanlega aðstoð til að aðlagast hvað þá takast á við þau áföll sem þau hafa upplifað. Enginn vill bera ábygð á því að hjálpa þessu fólki, enda kostar það peninga og tíma sem velmegunarþjóðfélögum þykir oft erfitt að sjá á eftir. En vandamálin sem við köllum flóttafólk munu ekki hverfa, þau munu að öllum líkindum aukast.

Svört framtíðarsýn

Áskoranirnar sem fylgja því að flytja sig búferlum í neyð og setjast að í nýju landi eru ekki þess eðlis að hægt sé að takast á við þær einn. Samfélögin sem taka á móti flóttamönnum verða að leggja þar hönd á bagga.

Samskipti okkar allra skipta svo ótrúlega miklu máli við mótun þeirra einstaklinga sem fæðast inní þennan veruleika. Ef fram fer sem horfir í hnattrænni hlýnun er augljóst að byggileg jarðsvæði munu minnka.  Það getur haft mjög alvarlegar afleiðingar að ala upp kynslóðir þjóðarbrota á sama landsvæði sem upplifa sig aldrei hluta af þjóðinni.

Við þurfum að læra að deila þeim auðlindum sem til eru. Plássið okkar hérna á jörðinni er að minnka og því miður er það okkur sjálfum að kenna. Ef við viljum ekki deila plássinu okkar, þá verðum við líka að fara að spýta í lófana með að draga úr gróðurhúsalofttegunum og snúa þessari þróun við.

Greinin birtist fyrst í prentuðu eintaki og á vefsíðu Stundarinnar