Mynd: NurPhoto/via Getty Images
Mynd: NurPhoto/via Getty Images

Á flestum stöðum er hitastig mælt á tvennan hátt. Annarsvegar er notast við mæli sem mælir lofthita (þurran hita) og hins vegar mæli sem mælir votan hita, þar sem tillit er rekið til rakastigs í loftinu. Voti hitinn er að öllu jöfnu lægri tala en lofthitinn sjálfur en búast má við að tilfelli þar sem hann er hár fari fjölgandi vegna loftslagsbreytinga.

Rakastig er afar mikilvægt fyrir afkomu mannfólks á hitabeltissvæðum. Eðlilegur líkamshiti okkar er um 37°C en hiti húðarinnar er aðeins lægri, um 35°C. Þessi hitastigsmunur gerir okkur kleift að losa okkur við hita úr líkamanum okkar með því að svitna.

Þegar votur hiti fer yfir 35°C erum við í vanda stödd því við eigum erfiðara með að kæla okkur með svita. Slíkar aðstæður geta leitt heilbrigðan einstkling til dauða á aðeins nokkrum klukkustundum.

Rakur hiti þarf í raun ekki að vera nema 31°C til að teljast hættulegur mönnum og hafa vísindamenn áhyggjur af því að með aukinni hlýnun Jarðar muni fólk hreinlega ekki geta lifað í ákveðnum heimshlutum.

Fram að þessu hefur rakur hiti Jarðar afar sjaldan farið yfir 31°C og eru líkurnar á því ekki miklar. Við höfum þó þegar séð dæmi um það en árið 2015 nálgaðist rakur hiti í Íran 35°C. Það ár létust 3.500 mannst í hitabylgju á Indlandi og í Pakistan.

Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar sem birtar voru fyrri í vikunni í tímaritinu Science Advances getum við átt von á að sjá fleiri slík dæmi í framtíðinni, sér í lagi í ákveðnum hlutum Suður-Asíu. Rannsóknarhópurinn áætlar að um 30% fólks muni upplifa lífshættulegar hitabylgjur með miklum raka fyrir árið 2100.

Meðal þess sem hópurinn gerði var að útbúa módel sem spáði fyrir um rakan hita í heiminum ef losun gróðurhúsalofttegunda væri áfram há. Samkvæmt módelinu myndi votur hiti nálgast 35°C á nokkrum svæðum í Suður-Asíu, til dæmis Norðaustur Indlandi, Bangladesh, austurströnd Kína, Norður Sri Lanka og Indus dal Pakistan.

Samkvæmt módelum rannsóknarhópsins væri afleiðingarnar töluvert minni ef Parísarsáttmálinn er virtur. Í því tilfelli væri fólk sem upplifði rakan hita yfir 31°C aðeins 2% í stað 30%.