Mynd: Nation of Change
Mynd: Nation of Change

Ömmur spila gjarnan mikilvægt hlutverk í uppeldi barna en það er afar sjaldgæft að dýr í náttúrunni hafi yfir höfuð samskipti við ömmu sína. Vísindamenn hafa þó komist að því að ömmur eiga veigamikinn þátt í afkomu fílsunga.

Phyllis Lee og samstarfsfólk hennar birti nýverið grein í tímaritinu Behavioral Ecology and Sociobiology sem fjallar um rannsóknir á fjölskyldumynstri fíla í Amboseli þjóðgarðinum í Kenía. Rannsóknarhópurinn rannsakaði yfir 800 fíla í þjóðgarðinum í yfir fjóra áratugi og hefur meðal annars komið í ljós að ömmur hafa mikil áhrif á það hvort fílsungar dætra þærra lifi af.

Fílaömmurnar hjálpa til við að gæta fílsunganna og aðstoða þá jafnvel ef þeir lenda í sjálfheldu. Auk þess stýra ömmurnar oft hjörðinni í leit að fæðu eða vatni og leiða samskipti við aðrar fílahjarðir.

Rannsóknum Lee er síður en svo lokið en hún segir að þörf sé á rannsóknum í fjóra áratugi í viðbót, enda er fílar sérstaklega langlíf dýr.