Þar sem Nasa áætlar nú að senda fólk til hinnar rauðu plánetu innan 20 ára standa yfir gríðarmiklar tilraunir til að sýna fram á hvort möguleiki sé að viðhalda þar sjálfbæru samfélagi. Hvatinn sagði frá því fyrir skömmu að tekist hefði að rækta plöntu í ISS (the International Space Station). Nú hefur Nasa gert frekari tilraunir með ræktun matvæla í von um að hægt verði að nýta jarðveginn sem finnst á Mars.

Með því að nýta þær upplýsingar sem þegar hefur verið safnað á Mars var búinn til jarðvegur sem talinn er líkjast því sem þar finnst. Jarðvegurinn er mjög ólíkur því sem finnst hér á jörðinni, þar sem ekkert lífrænt er þar að finna. Því varð að bæta í jarðveginn dýrasaur til að gera hann lífrænni. Þessi jarðvegur var svo nýttur til að reyna að rækta kál.

Til að auðga jarðveginn enn frekar var ánamöðkum bætt í hann ásamt mykjunni. Vísindahópurinn fylgdist svo með framvindu mála í nokkurn tíma og sér til mikillar gleði sáu þau að ánamaðkarnir virtust ekki bara dafna vel heldur náðu þeir einnig að fjölga sér. Að auki náði kálið að vaxa og dafna.

Þrátt fyrir jákvæðar niðurstöður er enn mörgum spurningum ósvarað. Það þarf að sjá lífverunum fyrir fljótandi vatni, hentugu hitastigi og til að byrja með þarf stöðuga uppsprettu lífrænna efna, áður en lífverurnar fara að leggja það til sjálfar.