Umræðan um örplast skýtur reglulega upp kollinum. Nú er ljóst að þessar litlu plastagnir er að finna á dýpstu svæðum hafsins sem og í líkömum okkar sjálfra og er alls óvíst að okkur takist að leysa vandamál sem því fylgja.

Örplast að finna víða

Örplast er skilgreint sem plast sem er minna en 5mm í þvermál. Það er að finna í ýmsum vörum sem við nýtum okkur dagsdaglega, til dæmis í sumum snyrtivörum, svo sem hreinsikremum og tannkremum. Auk þess er ýmis fatnaður gerður að úr plastefnum. Þegar slíkur fatnaður er þvegin í þvottavél losnar örplast úr fatnaðnum og á þaðan greiða leið út í hafið, líkt og rannsókn frá árinu 2017 sýndi fram á.

Örplast staðfest í djúpsjávardýrum

Hversu mikill örplast vandinn er í raun og veru kemur líklega einna skýrast fram í niðurstöðum rannsóknar sem birtar voru í síðustu viku. Í grein sem birt var í tímaritinu Royal Society Open Science af vísindamönnum við Newcastle háskóla er fjallað um það að örplast er að finna í lífverum sem eiga heimkynni sín á dýpstu svæðum hafsins.

Í rannsókninni var innihald í meltingarvega djúpsjávar marflóa skoðað, þær lifa á hafsvæðum sem eru dýpri en 7000 metrar. Alls voru 90 dýr frá sex mismunandi svæðum í heiminum skoðuð. Niðurstöðurnar voru nokkuð sláandi því örplast fannst í meltingarvegi 72% dýranna.

Slæmu fréttirnar enda þó ekki þar því raunin var sú að magn örplasts í meltingarvegi dýranna jókst eftir því sem nær dró hafsbotni. Það lítur þess vegna út fyrir að djúpálar hafsins séu að verða einskonar endastöð fyrir plastúrgang mannkynsins.

Örplast einnig innbyrt af mannfólki

Þó flesta rannsóknir fram að þessu hafi snúið að því að kanna magn örplasts í villtum dýrum einskorðast vandinn ekki við þau. Í rannsókn sem fjallað var um í heimildarmyndinni A Plastic Tide árið 2017 áætluðu vísindamenn við University of Ghent í Belgíu að það fólk sem borðar fisk eða skelfisk reglulega geti tekið inn allt að 11.000 plastagnir á ári. Þessar plastagnir eru síðan að hluta til (um 1% að mati rannsóknarhópsins) teknar upp í blóðrásina.

Lítið er vitað um það hvaða áhrif örplast hefur á heilsufar okkar en það gefur auga leið að varla telst æskilegt að borða plast þó í litlum mæli sé.

Stefna á bann gegn plastögnum í snyrtivörum

Mannkynið verður sífellt meðvitaðra um það hvaða áhrif það hefur á umhverfi sitt og hafa vísindamenn hvatt til þess að notkun á örplasti verði bannað í snyrtivörum. Yfirvöld í Bretlandi og Bandaríkjunum hafa til dæmis þegar hafið vinnu við að útlioka notkun þess í snyrtivörum.

Hvalir með magann fullan af plasti

Örplast er að sjálfsögðu ekki eina plastið sem mengar náttúruna. Allur plastúrgangur sem skilar sér út í náttúruna getur haft áhrif á lífríki jarðar. Villt dýr, líkt og fuglar og skjaldbökur, geta fest sig í ýmsum gerðum plasts auk þess sem sum dýr innbyrða það í misgripum fyrir fæðu.

Mest sláandi dæmið um þetta eru líklega þau tilfelli á undanförnum árum þar sem magainnihald hvala sem skolað hefur á land hafa verið skoðuð. Þar má nefna hræ búrhvals sem rak á strendur Spánar í fyrra. Í maga hvalsins var að finna 29 kílógrömm af plasti sem sem dýrið hafði innbyrt.

Vandi sem erfitt er að leysa

Það er hægara sagt en gert að áætla nákvæmlega hversu mikið af plastinu sem við notum endar í náttúrunni. Áætlað var að fyrir árið 2010 eitt og sér hafi talan verið allt að 12.7 milljón tonn.

Það er líklega nær ómögulegt að ætla að fjarlægja allan plastúrgang úr höfum heimsins þegar á þennan stað er komið en ljóst er að grípa verður til aðgerða áður en höf heimsins fyllast af plasti, í bókstaflegum skilningi.

Greinin birtist fyrst í prentuðu eintaki og á vefsíðu Stundarinnar.