Mynd: Academy of Sciences of Yakutia
Mynd: Academy of Sciences of Yakutia

Sífreri Síberíu hafa þann kost að þau varðveita hræ á einstakan hátt. Hvatinn hefur áður sagt frá vel varðveittum loðnashyrningi sem fannst þar í landi en nú hafa hellaljón bæst í hópinn, að því er kemur fram á vefsíðu The Siberian Times.

Um er að ræða tvo ótrúlega vel varðveitta ljónsunga sem eru taldir hafa dáið fyrir, í það minnsta, 10.000 árum. Þessi fundur er einstakur en fram að þessu hafa vísindamenn aðeins fundið höfuðkúpur og brot úr beinum og tönnum tegundarinnar.

Talið er að hellaljónin séu af tegundinni Panthera spelaea sem var meðal stærstu ljónategunda sem uppi hafa verið og voru fullvaxta einstaklingar um 1,2 metrar á hæð.

Að svo stöddu er ekki mikið vitað um ljónsungana tvo en niðurstöður fyrstu rannsókna verða birtar í lok nóvember. Á sama tíma munu vísindamenn birta niðurstöður um önnur dýr sem fundist hafa á sama svæði, til dæmis mammúta og loðnashyrninga.