Það eru ekki bara vísindamenn sem berjast fyrir því að mannkynið minnki áhrif sín á umhverfið. Frans páfi hvetur til úrræða til að vernda jörðina og berjast gegn hlýnun jarðar í uppkasti af bréfi sem lekið var nýlega.

Í uppkastinu segir að hlýnun jarðar megi rekja til áhrifa manna og notkunar mannkynsins á jarðefnaeldsneyti.

Vatíkanið er ósátt með að uppkastinu hafi verið lekið en til stóð að birta bréfið í heild sinni á morgun, 18. júní.

Bréfið er hvorki meira né minna en 192 blaðsíðna langt og nefnist „Laudato Si: On the care of the common home“. Í því koma fram bæði vísindalegar og siðferðislegar ástæður fyrir því að vernda skuli jörðina. Meðal þess sem fram kemur í bréfinu er að ástæðurnar að baki hlýnunar jarðar séu af mannavöldum og er til dæmis vitnað í allann þann líffræðilega fjölbreytileika sem hefur tapast í Amazon í því samhengi.

Páfinn vill með bréfinu hvetja mannkynið í heild sinni til að berjast gegn eyðileggingu vistkerfa. Að sögn fréttastofu BBC er ætlunin að bréfið setji tóninn fyrir umræður um málefnið á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sem fram fer í París í nóvember.