Mynd: Lewis Halsey
Mynd: Lewis Halsey

Ferðir stórra prímata á borð við órangútana í gegnum trjágróður eru orkufrekar. Vísindamenn hefur lengi grunað að dýrin byggi ákvörðun sína á því hvaða leið skuli fara á því hver orkunotkunin þeirra verður. Erfitt hefur þó reynst að sýna fram á þetta enda flókið að mæla orkunotkun villtra prímata með góðu móti. Rannsóknarhópur við University of Birmingham fékk því þá hugmynd að nýta náskylda ættingja prímata, mannfólk, sem staðgengla til þess að meta orkunotkun við frumskógaaðstæður.

Rannsóknarhópurinn útbjó einskonar þrautabraut sem endurspeglaði þær aðstæður sem er að finna í frumskógum. 28 parkour íþróttamenn voru síðan fengnir til að leysa ýmsar þrautir til dæmis að sveifla sér á milli „trjáa“, hoppa og klifra lóðrétt upp og niður. Á meðan á þrautunum stóð báru íþróttamennirnir grímur sem mældu súrefnisinntöku og var sú mælieining notuð til að meta orkunotkun fyrir hverja athöfn.

Í ljós koma að hver athöfn var mun orkufrekari en áður hefur verið talið. Vísindamennirnir benda þó á að líklega nýti prímatarnir sjálfir minni orku enda betur fallnir að lífi í trjánum en við mannfólkið.

Parkour íþróttamennirnir notuðu um 5-10 sinnum meiri orku þegar þeir klifruðu upp og niður stiga en þegar þeir sveifluðu sér eða hoppuðu á milli greina. Vegna þessa telja vísindamennirnir að prímatar sem lifa í trjám séu líklegir til að forðast það að klifra mjög hátt upp eða niður til að komast á milli staða.

Einnig er líklegt að þyngd apanna hafi áhrif á hvernig þeir ferðast á milli staða enda er erfiðara að koma þungum líkama á milli staða og líklegra að stórir apar meiðist ef eitthvað skyldi fara úrskeiðis.

Niðurstöðurnar hjálpa vísindamönnum að skilja það hvers vegna órangútanar velja margir hverjir að eyða miklum tíma á jörðinni fremur en í trjám. Auk þess kunna niðurstöðurnar að varpa ljósi á það af hvers vegna forfeður okkar völdu að kveðja lífið í trjánum og lifa alfarið á jörðinni.

Niðurstöðurnar voru birtar í Biology Letters.