environment

Mannfólkið leitast sífellt við að flokka fólk í hópa. Það á einnig við um persónuleika fólks og er gjarnan notast við fimm persónleikaþætti þegar persónuleiki einstaklinga er metinn. Metið er hversu úthverfir, taugaveiklaðir, sammvinnuþýðir, samviskusamir og víðsýnir einstaklingar eru. Persónueinkenni hafa áhrif á það hvernig við lifum lífinu og benda niðurstöður rannsóknar Háskólans í Portsmouth til þess að víðsýnir séu umhverfisvænastir en úthverfir séu hins vegar ólíklegastir til að vera það.

Rannsóknin, sem birt var í tímaritinu Futures, var fremur lítil en vísindamennirnir lögðu könnun fyrir 204 einstaklinga, 50 ára og eldri. Spurningarnar snerust um umhverfismál svo sem endurvinnslu, mengun og orkunýtni þátttakenda. Í ljós kom að úthverfir einstaklingar voru ólíklegastir til að sýna hegðun sem telst umhverfisvæn líkt og að slökkva ljós og að taka með sér eigin poka þegar verslað er í matinn. Víðsýnir einstaklingar voru aftur á móti líklegastir til þess að vera umhverfisvænir. Sú niðurstaða var eins og við var að búast en víðsýnt fólk er þekkt fyrir að vera bæði forvitið og hugmyndaríkt.

Niðurstöðurnar komu rannsóknarhópnum á óvart en þeir töldu líklegt að úthverfir einstaklingar væru umhverfisvænir. Rannsóknarhópurinn telur að þó svo að úthverfir einstaklingar hugsi oft um umhverfið sé hreinlega svo margt annað í lífi þeirra sem kallar á athygli og kemur í veg fyrir að þeir breyti lífstíl sínum til grænni vegar.

Rannsóknir sem þessar eru enn stutt á veg komnar og tekið skal fram að erfitt er að mæla bæði persónueinkenni og umhverfisvæna hegðun. Niðurstöðurnar eru þó áhugaverðar og má ætla að fleiri rannsóknir á þessu sviði muni líta dagsins ljós á komandi árum. Betri skilningur á tengslunum milli persónuleika og umhverfisvænnar hegðunar gæti hjálpað til við stefnumótun á sviði umhverfismála í framtíðinni.