11006209_10152710303327705_121013686_n

Höfundur: Þóra Geirlaug Bjartmarsdóttir, líffræðingur og grunnskólakennari

Við lifum á spennandi tímum, þrátt fyrir að veðurfar síðustu mánuði gefi annað til kynna er hitastig sífellt að hækka og hver veit nema að í hópi skógarþrasta og kría muni bráðlega bætast páfagaukar og pelikanar. Eða hvað?

Við skulum byrja á byrjuninni, umhverfis jörðina er þunnt gaslag sem ver okkur fyrir hættulegum geislum sólar og kallast það lofthjúpur. Lofthjúpur jarðar er að langstærstum hluta úr köfnunarefni og súrefni, en afgangurinn af honum er úr gróðurhúsalofttegundum eins og vatnsgufu, koldíoxíði, metani og ósoni. Gróðurhúsalofttegundirnar valda því að varmi sem jörðin sendir frá sér er kastað til baka, ekki ósvipað og inni í gróðurhúsi. Ein mikilvægasta gróðurhúsalofttegundin er koldíoxíð (CO2) en mælingar á henni hófust árið 1958. Síðan mælingarnar hófust hefur styrkur koldíoxíðs í lofthjúpnum aukist um þriðjung. Þetta veldur því að jörðin hlýnar þar sem aukinn styrkur gróðurhúsalofttegunda eykur endurkast varmans aftur niður á jörðina. Náttúruleg hringrás koldíoxíðs felst í því að plöntur taka það upp við ljóstillífun, aðallega yfir sumartímann, en yfir vetrartíma rotna lífrænar leifar og koldíoxíð losnar þannig aftur út í andrúmsloftið. Með því að maðurinn fór að brenna miklu magni jarðefnaeldsneytis í kjölfar iðnbyltingarinnar truflast hringrásin með fyrrgreindum afleiðingum. Á síðustu 100 árum hefur meðalhiti t.d. hækkað um 0,7°C, sem eftir þennan vetur kann að hljóma ansi lítið en áhrif þessarar hlýnunar er engu að síður mjög alvarleg. Ástæða hlýnunarinnar má fyrst og fremst rekja til athafna mannsins, en með breyttu lífsmynstri höfum við samviskusamlega dælt út mun meira magni
gróðurhúsalofttegunda en náttúran gerir ráð fyrir, aðallega koldíoxíði.

Síðustu áratugi hefur WHO lagt áherslu á að vekja fólk til umhugsunar um áhrif hnattrænnar hlýnunar og hefur ýmislegt unnist. Víða um heim hafa stjórnvöld með virkum hætti minnkað útblástur gróðurhúsalofttegunda til að sporna við áhrifunum því full ástæða er til að taka þetta mjög alvarlega. Afleiðingar hnattrænnar hlýnunar eru til að byrja með minni snjóhula, hörfun jökla og hærra yfirborð sjávar. Þetta hefur áhrif á útbreiðslu lífvera sem í beinu framhaldi hefur áhrif á samsetningu vistkerfa. Einnig má sjá nú þegar aukna úrkomu og almennt meiri öfga í veðurfari sem eykur líkurnar á uppskerubresti vegna ófyrirséðra veðurbreytinga. WHO hefur gert úttekt á því hvar áhrifinna mun gæta hvað mest, en tekur jafnframt fram að alvarlegustu áhrifin munu verða í þróunarlöndum þar sem innviðir eru veikir. Hækkað yfirborð sjávar mun þannig líklega hafa mest áhrif á strandbæji Afríku og Asíu auk þess sem smáeyjar í Kyrrahafi verða í mikilli hættu. Samfélagsleg áhrif koma jafnframt í kjölfar náttúrulegu áhrifanna en skv greiningu WHO mun dauðsföllum vegna vannæringar, smitsjúkdóma og hitaslaga fjölga gríðarlega. Tölur sem nefndar hafa verið í því samhengi er að árið 2030 er gert ráð fyrir að 38 þúsund manns láti lífið vegna hitaslaga, aðallega eldra fólk, 60 þúsund vegna aukinna malaríusmita og loks 95 þúsund vegna vannæringar í æsku.

Það sorglegasta við áhrif hnattrænnar hlýnunar er þó líklega það að þau landsvæði sem verst verða úti eru ekki þau svæði sem mesta ábyrgð bera á henni, þvert á móti eru það þau svæði sem ábyrgðina bera sem þar sem „minnstra neikvæðra“ áhrifa gætir. Þá er nú gott að stjórnvöld hér á landi séu vakandi og viðurkenni nauðsyn þess að vinna gegn hnattrænni hlýnun t.d. með því að minnka mengandi stóriðju og hvetja til umhverfisvænni samgönguleiða. Nú eða með því að styðja þau svæði sem verst verða úti með aukinni þróunaraðstoð. Það eru jú svo sannarlega spennandi tímar framundan.