Mynd: Kasit Rungreang Industry
Mynd: Kasit Rungreang Industry

Plast er þyrnir í augum flestra sem láta sér hið minnsta annt um náttúruna vegna þeirrar mengunar sem það veldur. Það kostar umhverfið óhemju mikið að búa plastið til og niðurbrot þess tekur óratíma. Komist plast útí náttúruna, sem hefur því miður gerst í alltof mörgum tilfellum, veldur það tjóni í vistkerfunum þegar dýr flækjast í því eða borða það. Það er einmitt þess vegna sem nýjasta uppfinning vísindahóps við U.S. Department of Agriculture er kærkomin viðbót í matvælaiðnaðinn.

Uppfinningin byggir á því að pakka matvælum í prótínbyggða filmu sem líkist plasti, bæði að áferð og eiginleikum. Filman er að mestu leiti gerð úr casein prótíni sem finnst í mjólk. Að auki eru einhver íblöndunarefni svo sem pektín, sem er fjölsykra, bætt í filmuna til að gera hana þolnari fyrir raka og sér vísindahópurinn fyrir sér að með tímanum megi jafnvel bæta vítamínum eða öðrum nauðsynlegum snefilefnum í filmuna líka.

Þessi hugmynd er ekki alveg ný af nálinni en nokkrar svipaðar lausnir til matarpakkninga hafa verið settar fram. Flestar þeirra byggja á filmum þar sem uppistaðan er einhver fjölsykra. Prótínfilman gefur betri vörn gegn súrefni sem með tímanum smýgur í gegnum allar filmur og leiðir til þess að maturinn skemmist.

Matarfilman var kynnt á dögunum á ráðstefnu í Bandaríkjunum sem ber heitið National Meeting & Exposition of the American Chemical Society. Hér að neðan má sjá myndband þar sem plast-staðgengillinn er kynntur.