plast-rusl

Ein af stærstu umhverfisvánum sem við þurfum að takast á við í dag er plastmengun. Plast er því miður of mikið notað í heiminum og of lítið endurunnið. Mjög stór hluti af plastinu sem er notað endar því í umhverfinu okkar og þar á meðal hafinu. Þar stafar lífríkinu mikil hætta af plastinu þar sem sjávardýr geta t.d. flækt sig í plastinu og dáið eða étið það og kafnað (eins og á reyndar við um landdýr líka).

Fyrir utan stóra plastið sem við missum í hafið fer þangað líka ógrynni af míkróplastögnum í gegnum úrgangsvatnið okkar. Hluti af plastinu sem við skolum út kemur úr snyrtivörum, svo sem tannkremum og hreinsikremum. En stór hluti skolast líka úr fötunum okkar, sem eru gerð úr ákveðnum efnum, þegar við setjum þau í þvottavélina.

Í rannsókn sem var birt í Environmental Science and Technology í síðasta mánuði, skoðar vísindahópur frá Sviss hvernig plastagnir losna úr flíkum og enda í hafinu. Vísindahópurinn skoðaði m.a. hitastig og lengd þvottarins, sem bæði virðast líklegir áhrifaþættir við losun plastagna úr flíkum.

Það kom vísindahópnum þess vegna á óvart þegar í ljós kom að sama magn plastagna losnaði úr flíkunum við mismunandi hitastig og magnið jókst ekki heldur þegar þvottahringurinn var lengdur. Þrátt fyrir að rannsóknin hafi sýnt þveröfuga niðurstöðu við það sem vísindahópurinn lagði af stað með í upphafi eru þessar niðurstöður fyrsta skrefið í að komast að því hvernig plastagnirnar losna og fara útí umhverfið.

Ef hægt er að skilgreina hvaða ferli valda losun plastagna er mögulega hægt að breyta þvottavélum eða þvottaefnum til að takmarka þessa losun. Á meðan getur hinn almenni neytandi lagt sitt af mörkum með því að takmarka notkun á fatnaði sem gefur frá sér plastagnir eins og t.d. pólýester-efnum.

Að lokum er rétt að minna á átakið plastlaus júlí sem allir geta tekið þátt í með lítilli fyrirhöfn. Markmið átaksins er að nota eins lítið plast og við komumst upp með (helst ekkert) í heilan mánuð. Átök eins og plastlaus júlí geta hjálpað okkur að uppgötva hversu auðveldlega við getum minnkað plastnotkun inná heimilinu, svo endilega takið þátt!